Fara í efni

Vorfundur SATS

Þann 7.  og 8. maí var haldinn í Ólafsvík árlegur vorfundur Samtaka tæknimanna sveitarfélaga, Félags byggingarfulltrúa, Félags skipulagsfulltrúa sveitarfélaga og Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra. Mjög fjölbreytt dagskrá var í boði þar sem fyrirlesarar innan sem utan samtaka komu með fróðleik um allt frá skráningu staðfanga til vistheimtu. Þar var einnig Ragnar Þórðarson, fyrir hönd Landmælinga Íslands og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, með erindi um INSPIRE, grunngerð og hlutverk sveitarfélaganna í því samhengi. Ragnar er verkefnisstjóri átaksverkefnis sem er nú í gangi hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í samstarfi við Landmælingar Íslands, til stuðnings innleiðingu INSPIRE tilskipunarinnar og grunngerðar stafrænna landupplýsinga og var þetta erindi fyrsta skrefið í átt að þátttöku sveitarfélaga í því verkefni. Sveitarfélögin eru mikilvægir aðilar í grunngerð stafrænna landupplýsinga á Íslandi en fjöldi þeirra og fjölbreytileiki kallar á mjög náið samstarf, þeirra á milli og við verkefnið.
Meðfylgjandi mynd tók Ragnar Þórðarson á fundinum í Ólafsvík.