Gæðastefna Landmælinga Íslands
Gæðastefnan lýsir áherslu Landmælinga Íslands á gæðum vinnu og þjónustu og að þjónusta stofnunarinnar sé í samræmi við væntingar viðskiptavina, samstarfsaðila og starfsfólks.
Með gæðastefnunni vilja Landmælingar Íslands tryggja stöðugar umbætur í starfsemi stofnunarinnar. Þetta er m.a. gert með því að leggja áherslu á vel skilgreinda verkefnastjórnun.
Stjórnendur Landmælinga Íslands gera sér grein fyrir að gæðamál eru stöðugt á dagskrá og vanda þarf til verka við úrlausn þeirra. Innleiðing og framkvæmd stefnunnar er mikilvæg til að fullvissa starfsfólk, samstarfsaðila og viðskiptavini Landmælinga Íslands um áherslur í gæðamálum.
Gæðastefnan tekur til allrar vinnu sem unnin er í nafni Landmælinga Íslands hvort sem er við öflun og vinnslu landfræðilegra gagna, varðveislu og miðlun landfræðilegra upplýsinga eða aðra starfsemi.
Allt starfsfólk Landmælinga Íslands ber ábyrgð á framkvæmd þessarar stefnu.
- Markmið LMÍ með gæðastefnunni eru að:
- Vera öflug og traust stofnun sem gegnir mikilvægu hlutverki við að uppfylla þarfir samfélagsins fyrir landfræðileg gögn.
- Veita viðskiptavinum góða og faglega þjónustu sem byggir á heilindum starfsmanna og gagnkvæmu trausti milli aðila.
- Gæta hagkvæmni í starfsemi þannig að rekstur LMÍ skili hámarksþjónustu fyrir þá tekjustofna sem standa undir starfseminni.
- Beita viðurkenndum aðferðum gæðastjórnunar þar sem allir starfsmenn taka virkan þátt í að vinna stöðugt að endurbótum.
- Veita starfsmönnum gott vinnuumhverfi og hvatningu í starfi. Styðja frumkvæði þeirra.
- Viðhalda og efla fagþekkingu starfsmanna.
- Fylgja og hlíta opinberum kröfum sem gerðar eru til starfsemi LMÍ hverju sinni.
- Fylgja lögum, reglugerðum og reglum sem lúta að landmælingum, stjórnsýslulögum, lögum um persónuvernd, upplýsingalögum og öðrum lögum sem kunna að eiga við.
- Fylgja öllum samningum sem LMÍ eru aðili að og varða gæðamál á einhvern hátt.
Leiðir að markmiðum
- Gæðahandbók með verklagsreglum og lýsingum.
- Gæðahópur sem hefur það hlutverk að fjalla einungis um gæðamál hittist a.m.k. fjórum sinnum á ári eða oftar ef þörf krefur til þess að fara yfir gæðamál í stofnuninni.
- Starfsfólk Landmælinga Íslands fylgir Gæðahandbókinni og öðrum fyrirmælum stjórnenda stofnunarinnar í störfum sínum.
- Regluleg kynning á stöðu gæðamála á starfsmannafundum í þeim tilgangi að starfsfólk Landmælinga Íslands sé upplýst, fái fræðslu varðandi gæðamál og geri sér grein fyrir ábyrgð þeirra hvað gæðamál varðar.
- Í öllu starfi verði gildi Landmælinga Íslands höfð að leiðarljósi:
Vandvirkni – Notagildi – Aðgengi - Samvinna
Ábyrgð
Ábyrgð á framkvæmd gæðastefnu skiptist á eftirfarandi hátt:
- Forstjóri Landmælinga Íslands ber ábyrgð á gæðastefnu stofnunarinnar.
- Gæðastjóri ber ábyrgð á innleiðingu gæðastefnunnar.
- Starfsfólk Landmælinga Íslands ber ábyrgð á að fylgja þeim vinnuferlum og lýsingum sem tengjast verkefnum þeirra og tryggja eiga framkvæmd gæðastefnunnar.
- Samstarfsaðilar, verktakar og birgjar bera ábyrgð á að farið sé eftir samningsbundnum vinnuferlum.
- Allt starfsfólk Landmælinga Íslands ber ábyrgð á að tilkynna frávik og galla sem varða væntingar viðskiptavina.
Endurskoðun
Þessi stefna skal endurskoðuð á þriggja ára fresti eða oftar ef þörf krefur.