Fara í efni

Jafnréttisstefna Landmælinga Íslands

Jafnréttisstefnu Landmælinga Íslands er ætlað að stuðla að jafnrétti og jöfnum tækifærum kynja innan stofnunarinnar. Jafnréttisstefnan byggir á lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Markmið laganna er m.a. að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum. Forstjóri ber ábyrgð á að jafnréttisstefnunni sé fylgt eftir.

Jafnréttisstefnuna skal endurskoða á þriggja ára fresti.

 

 

Laus störf eru óháð kyni

Öll laus störf skulu standa jafnt konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í Þjóðskrá til boða. Þegar ráðið er í ný störf skal farið eftir lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Launajafnrétti

Samkvæmt kjarasamningum, Lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 og öðrum lögum og kröfum sem gerðar eru skal öllu starfsfólki Landmælinga Íslands greidd sömu laun fyrir jafn verðmæt og sömu störf.

Forstjóri ber ábyrgð á öllum launaákvörðunum og gætir að samræmi. Launaákvarðanir eru teknar með málefnalegum og rökstuddum hætti á grundvelli kjara- og stofnanasamninga. Allar launaákvarðanir eru rökstuddar, skjalfestar og rekjanlegar.

Stjórnendur stofnunarinnar skuldbinda sig til að:

  • Innleiða, skjalfesta og viðhalda jafnlaunastjórnunarkerfi í samræmi við kröfur staðalsins ÍST 85:2012 og öðlast vottun í samræmi við lög 56/2017 um jafnlaunavottun.
  • Vinna að stöðugum umbótum, eftirliti og viðbrögðum í samræmi við kröfur jafnlaunakerfis.
  • Framkvæma árlega launagreiningu þar sem borin eru saman sömu eða jafn verðmæt störf og kynna niðurstöður ásamt jafnlaunastefnu fyrir starfsfólki árlega.
  • Bregðast við ef kröfur staðalsins eru ekki uppfylltar, þar á meðal óútskýrður launamunur, með umbótum og eftirliti.
  • Framkvæma árlega rýni stjórnenda þar sem jafnlaunamarkmið eru sett fram og rýnd.
  • Fylgja viðeigandi lagalegum kröfum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta árlega að þeim sé hlítt.
  • Halda utan um jafnlaunakerfi Landmælinga Íslands í samræmi við VLR 030 Jafnlaunakerfi.
  • Tryggja að jafnlaunastefna þessi sé aðgengileg á vef Landmælinga Íslands.

Komi í ljós launamunur á jafn verðmætum og sambærilegum störfum skal hann leiðréttur ef ekki er hægt að rökstyðja hann á málefnalegum grundvelli gildandi stofnanasamninga. Stefna um launajafnrétti skal kynnt árlega fyrir öllum starfsmönnum.

Starfsþjálfun og endurmenntun

Konur, karlar og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá skulu njóta sömu möguleika til starfsþjálfunar og endurmenntunar og fá þannig tækifæri til að auka þekkingu og hæfni m.a. vegna faglegrar þróunar og nýjunga í starfseminni.

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Starfsfólki býðst að skila vinnuframlagi með sveigjanlegum vinnutíma samkvæmt gildandi viðmiðunum og reglum. Með sveigjanlegum vinnutíma hafa skapast betri möguleika en ella til að samræma starf og fjölskyldulíf. Foreldrar eru hvattir til að skipta með sér að vera heima vegna veikinda barna. Verðandi feður og mæður eru hvött til að nýta sér fæðingarorlof.

Kynbundið ofbeldi eða áreitni, kynferðisleg áreitni og einelti

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni eða kynferðisleg áreitni, einelti eða önnur ótilhlýðileg háttsemi er ekki liðin hjá Landmælingum Íslands. Í Gæðahandbók eru leiðbeiningar fyrir starfsfólk og stjórnendur ef bregðast þarf við vegna þessara mála.