Góð stefnumörkun felst meðal annars í því að traustar upplýsingar séu fyrir hendi og að almenningur sé vel upplýstur. Þetta á ekki síst við um landfræðilegar upplýsingar sem geta spannað mjög breytt svið en hafa það sammerkt að vera tengdar ákveðinni staðsetningu. Með nýrri og öflugri tækni hafa opinberar stofnanir og sveitarfélög í auknum mæli nýtt sér landfræðileg upplýsingakerfi við að kortleggja og miðla upplýsingum. Þetta kallar á gott skipulag og stöðluð og öguð vinnubrögð þar sem leitast er við að nýta sem best opinbera fjármuni og veita sem bestar upplýsingar. Einnig er talið að gott skipulag á þessu sviði hvetji til nýsköpunar og að tækifærum einkafyrirtækja muni fjölga til að veita margskonar þjónustu fyrir almenning.
Til að ná framangreindum markmiðum hefur Evrópusambandið meðal annars unnið að því nokkur undanfarin ár að móta stefnu og gera tillögu að löggjöf um innra skipulag landupplýsinga í allri Evrópu. Þetta verkefni er nú í farvegi sem samþykkt tilskipun sem hefur hlotið nafnið INSPIRE (Infrastructure for Spatial Information in Europe). Tilskipunin byggir á hinum ýmsu gögnum og upplýsingakerfum sem til eru hjá aðildarríkjunum og að þessi gögn geti unnið betur saman en hvert fyrir sig og myndað hluta af Innra skipulagi (infrastructure) fyrir landfræðilegar upplýsingar í Evrópusambandinu.
Lykilmarkmið INSPIRE er að frekari og betri landfræðilegar upplýsingar verði aðgengilegar og beinist áhersla aðallega að upplýsingum sem þurfa að vera fyrir hendi til að fylgjast með og bæta ástand umhverfisins, og eru þar með taldir þættir vatns, jarðvegs og náttúrulegs landslags. INSPIRE er ekki ætlað að tryggja að fram fari öflun nýrra gagna en þess í stað er tilskipuninni ætlað að nýta sem best tækifæri til að nota gögn sem þegar eru fyrir hendi með því að láta skrá þau, taka í notkun þjónustu sem stefnir að því að gera staðbundin gögn aðgengilegri og gagnvirkari fyrir fleiri aðila og með því að fást við hindranir sem koma í veg fyrir að staðbundin gögn séu nýtt.