Fara í efni

Viðurkenning fyrir örnefnaskráningu

Sumarið 2010 gerðu Landmælingar Íslands og Félag aldraðra í Borgarfjarðardölum samstarfssamning um aðgengi félagsins að örnefnskráningarveftóli stofnunarinnar, til að skrá inn örnefni á jörðum í Borgarfjarðardölum. Síðan þá hefur skráningaraðili á vegum félagsins í samvinnu við staðkunnuga, skráð örnefni á 79 jörðum og um þessar mundir eru fimm jarðir í vinnslu. Má því segja að verkefnið sé um það bil hálfnað. Við úthlutun árlegra styrkja Menningarráðs Vesturlands þann 1. mars síðastliðin fékk félagið viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf, en frá því er sagt í Skessuhorni, fréttaveitu Vesturlands, 8. mars 2013. Þar kemur fram að viðurkenningin sé veitt fyrir tuttugu ára óeigingjarnt starf við að safna og varðveita örnefni í Borgarfjarðardölum. Einnig kemur fram í blaðinu að Þorsteinn Þorsteinsson frá Skálpastöðum, sem veitti viðurkenningunni viðtöku fyrir hönd félagsins, hafi rakið sögu verkefnisins frá upphafi og til dagsins í dag og að félagar bindi vonir um að örnefnin verði komin inn í kortagrunn Landmælinga Íslands fyrir árslok 2014. Þá hafi Þorsteinn áréttað að hér væri um þekkingu að ræða sem annars hefði glatast með elstu kynslóðinni.

 Landmælingar Íslands óska Félagi aldraðra í Borgarfjarðardölum innilega til hamingju með viðurkenninguna og frábæran árangur í verkefninu.

 Örnefnin sem þegar hafa verið skráð eru aðgengileg í Örnefnasjá Landmælinga Íslands á heimasíðu stofnunarinnar.

Â