Fara í efni

Viðurkenning fyrir innleiðingu á jafnlaunastaðli

Jensína Valdimarsdóttir, starfsmannastjóri og Anna Guðrún Ahlbrecht gæðastjóri. Mynd: Guðni Hanness…
Jensína Valdimarsdóttir, starfsmannastjóri og Anna Guðrún Ahlbrecht gæðastjóri. Mynd: Guðni Hannesson
Frá því í byrjun árs 2013 hafa Landmælingar Íslands unnið að innleiðingu á jafnlaunakerfi samkvæmt jafnlaunastaðlinum  ÍST 85:2012, en stofnunin hlaut síðar á árinu jafnlaunavottun VR. Markmið jafnlaunastaðalsins er að auðvelda atvinnurekendum að koma á launajafnrétti kynja og tryggja fagleg vinnubrögð í þeim efnum. Í kjölfar jafnréttisþings í nóvember árið 2013 bauðst Landmælingum Íslands að taka þátt í tilraunaverkefni velferðarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins um innleiðingu á jafnlaunastaðlinum. Verkefninu var stjórnað af sérfræðingum ráðuneytanna sem efndu til samstarfsvettvangs fyrir þátttakendur í verkefninu, sem voru frá stofnunum, fyrirtækjum og sveitarfélögum. Síðan þá hefur verkefnið staðið yfir og þátttakendur hafa getað miðlað þekkingu og reynslu sín á milli. Frá upphafi vinnunnar hafa Landmælingar Íslands unnið að þróun jafnlaunakerfis stofnunarinnar og fengið árlega staðfestingu á að launaákvarðanir séu kerfisbundnar samkvæmt kröfum staðalsins og teknar með málefnalegum og rökstuddum hætti. Í byrjun árs 2017 fékk stofnunin jafnlaunavottun og um leið heimild velferðarráðuneytisins til að nota jafnlaunamerkið. Á jafnréttisþingi í dag, 8. mars 2018 lauk tilraunaverkefninu. Af því tilefni afhenti Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra þátttakendum sem hafa hlotið jafnlaunavottun, viðurkenningu. Auk Landmælinga Íslands var þar um að ræða Tollstjóra, Hafnarfjarðarbæ, Velferðarráðuneytið, VÍS og Össur. Þó svo að þessum áfanga hafi verið náð í dag er vinnu við jafnlaunakerfið ekki lokið hjá Landmælingum Íslands, því kerfið byggir á stöðugum umbótum og eftirfylgni með því að laun séu ákvörðuð með málefnalegum og rökstuddum hætti.