Vinnuhópar vegna innleiðingar á grunngerð landupplýsinga
Á undanförnum árum hafa Landmælingar Íslands unnið að því á grundvelli laga nr. 44/2011 í nánu samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið að byggja upp grunngerð stafrænna landupplýsinga hér á landi. Verkefnið krefst samstarfs við ríkisstofnanir og sveitarfélög sem nota eða framleiða landupplýsingar og er grundvöllurinn INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins. Meginmarkmiðið er að gera landupplýsingar aðgengilegar öllum sem á þurfa að halda og koma í veg fyrir tvíverknað og óhagræði.
Innleiðing grunngerðar landupplýsinga er langtímaverkefni þar sem stofnanir og sveitarfélög þurfa að skrá gögn sín og aðlaga að alþjóðlegum stöðlum svo hægt sé að nálgast þau á Internetinu og nota með gögnum annarra. Við þessa skráningu þarf að fara eftir forgangsröðun og efnisflokkum (þemum) sem fram koma í INPSIRE tilskipuninni og einnig þarf að vega og meta stöðuna þegar tveir eða fleiri opinberir aðilar eru að vinna samskonar eða sambærileg gögn.
Á þessu ári hafa ellefu vinnuhópar skipaðir tengiliðum viðeigandi stofnana unnið að því að gera tillögur að úrbótum varðandi fyrirkomulag landupplýsingamála á viðkomandi sviði allt frá ferlum við skráningu gagna til lagabreytinga. Um er að ræða vinnu við eftirfarndi ellefu þemu, en áður hafa starfað vinnuhópar um samgöngur og vatnfar:
- Hæðarlíkön
- Landgerðir
- Uppréttar fjarkönnunarmyndir
- Jarðfræði
- Viðmiðunarhnitakerfi,
- Landfræðileg reitakerfi
- Örnefni
- Stjórnsýslueiningar
- Heimilisföng
- Landareignir og lóðir
- Verndarsvæði