Fara í efni

Vindur breytir rennslisstefnu jökulfljóta á Skeiðarársandi

Í síðasta mánuði var frétt um „árstíðasveiflur í rennsli jökuláa“ birt hér á vef LMÍ þar sem bornar voru saman Sentinel-2 gervitunglamyndir af Skeiðarársandi frá vetri annars vegar og sumri hins vegar. Í framhaldi af því er ekki úr vegi að skoða fleiri Sentinel-2 myndir af þessu sama svæði. Það hefur löngum verið vitað að rennsli í jökulám sveiflast með hitastigi og úrkomu og getur því breyst mikið frá degi til dags. Hitt er ef til vill öllu sjaldgæfara að vindur ráði rennsli í ánum. Þetta kemur hins vegar berlega í ljós ef bornar eru saman Sentinel-2 myndir sem teknar voru með aðeins þriggja daga millibili, 23. og 26. júlí s.l. Samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands var rólegheita veður 23. júlí, vindhraði ekki nema 3 – 4 m/sek og breytileg átt. Þetta breytist svo seinnipartinn 25. júlí  þegar gerði stífa autanátt og hélst þannig þann 26. júlí.  Þegar myndin er tekin skömmu eftir hádegið er vindhraðinn 15 – 16 m/sek. Þetta kemur greinilega fram í rennsli jökulánna syðst á Skeiðarársandi. Austast á sandin sést hvernig neðsti hluti Virkisár og Skaftafellsár sveigist til vesturs og sama má segja um Skeiðará aðeins vestar sem reyndar er varla sýnileg á fyrri myndinni. Vestan til á Skeiðarársandi er Gígjukvísl og enn vestar Djúpá og Hverfisfljót. Gígjukvísl er væntanlega svo vatnsmikil og djúp að vindur hefur ekki áhrif á rennsli hennar en annað er uppá teningnum varðandi Djúpá því talsverður hluti hennar „fýkur“ hreinlega yfir í Hverfisfljót syðst á sandinum.