Vel sóttur fundur um endurmælingu á landshnitakerfi Íslands
Þriðjudaginn 14. nóvember héldu Landmælingar Íslands morgunverðarfund á Grand Hóteli í Reykjavík þar sem kynntar voru niðurstöður endurmælingar á landshnitakerfi Íslands sem fram fór sumarið 2016. Einnig var farið yfir framtíðasýn fyrir landshnitakerfið, innleiðingu á nýrri viðmiðun ISN2016 (e:Datum) og þeim þjónustum sem Landmælingar Íslands stefna að því að bjóða upp á í tengslum við þessa nýju viðmiðun s.s. vörpunarforrit og nákvæmar staðarákvarðanir í rauntíma.
Fundurinn var vel sóttur og mættu yfir 50 manns frá ríkisstofnunum, sveitarfélögum og einkafyrirtækjum til að kynna sér niðurstöðurnar enda er gott landshnitakerfi sérstaklega mikilvægt í landi þar sem jarðhræringar eru miklar.
Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, ávarpaði gesti í upphafi fundar og nefndi m.a. að mikilvægi grunnmælikerfa landsins væri sífellt að aukast þar sem notendum staðsetningarkerfa færi fjölgandi og aukin krafa væri um mikla nákvæmni og öryggi kerfanna. Magnús þakkaði einnig nokkrum aðilum sem aðstoðuðu við endurmælinguna sumarið 2016 eða undirbúning hennar s.s. umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Vegagerðinni, Landhelgisgæslu Íslands, Landsvirkjun og norsku kortastofnuninni Kartverket sem færði Landmælingum Íslands 15 GPS tæki til að nota við mælingarnar.
Mælingaverkfræðingarnir Guðmundur Valsson, Þórarinn Sigurðsson og Dalia Prizginiene héldu kynningar og eru þær aðgengilegar hér fyrir neðan. Í lok fundarins fóru fram umræður og kom þá fram jákvæður vilji um að innleiða nýja viðmiðun hratt og vel með samstilltu átaki opinberra aðila og einkafyrirtækja.
Â
Upptaka frá fundinum verður sett á netið innan skamms.
Glærur frá fundinum:
Appliance of IceCORS network, Dalia Prizginiene
Innleiðing á ISN2016, Þórarinn Sigurðsson
Ný viðmiðun, Guðmundur Valsson