Vel heppnað málþing á Akranesi um opinber störf á landsbyggðinni
Föstudaginn 22. febrúar 2019 stóðu Landmælingar Íslands að afar vel heppnuðu málþingi um opinber störf á landsbyggðinni. Tilefni þessa málþings var að um 20 ár eru síðan að Landmælingar Íslands voru fluttar til Akraness frá Laugaveg 178 í Reykjavík, þar sem markmiðið var að efla atvinnulífið utan höfuðborgarinnar. Á þessum tíma störfuðu tæplega 30 starfsmenn hjá Landmælingum Íslands sem allir voru búsettir í Reykjavík eða nágrannasveitarfélögum. Ákvörðun um flutning, sem var pólitísk, var afar umdeild og olli miklum deilum í samfélaginu.
Málþingið hófst á ávarpi fundarstjóra, Bjarnheiðar Hallsdóttur formanns Samtaka ferðaþjónustunnar, sem lagði áherslu á að tæknibyltingin í fjarskiptum og upplýsingatækni hafi stuðlað mjög að auknum tækifærum til að fjölga störfum á landsbyggðinni bæði í opinbera geiranum og í atvinnulífinu almennt. Í því sambandi spurði Bjarnheiður hvort að flutningur heilla ríkisstofnana út á land sé ekki úrelt byggðastefna og í staðinn þurfi að innleiða aðra aðferðafræði s.s. með störfum án staðsetningar.
Í framhaldinu fluttu erindi þau Eydís Líndal Finnbogadóttir, settur forstjóri Landmælinga Íslands og Magnús Guðmundsson (forstjóri Landmælinga Íslands í leyfi í eitt ár) en hann sinnir nú tímabundið starfi framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs. Í erindi Eydísar og Magnúsar kom fram að aðdragandi flutnings Landmælinga Íslands, sem stóð yfir í fjögur ár, hafi verið mjög erfiður. Vegna þessa hætti stór hluti starfsmanna og á endanum var það aðeins forstjórinn sem flutti búferlum. Í kjölfarið sköpuðust tækifæri til að ráða nýtt sérmenntað starfsfólk og að meðaltali sóttu 10 sérfræðingar um hvert starf sem var auglýst. Nú starfa 26 starfsmenn hjá Landmælingum Íslands og búa 67 % þeirra á Akranesi. Helstu niðurstöður Eydísar og Magnúsar voru að það séu fleiri kostir en ókostir við að hafa opinber störf utan höfuðborgarsvæðisins. Það sé hins vegar nauðsynlegt að beita öðrum aðferðum en að flytja heilar ríkisstofnanir á milli landshluta til að fjölga opinberum störfum þar. Í auknum mæli þurfi að auglýsa opinber störf án staðsetningar og að á landbyggðinni sé opinberum störfum best komið fyrir þannig að þau séu í sameiginlegu húsnæði með öðrum ríkisstofnunum. Einnig lögðu Eydís og Magnús áherslu á að til að hægt sé að auka sveigjanleika við að staðsetja opinber störf á landsbyggðinni þurfi ríkisstofnanir að vera stærri og færri og jafnvel að engin stofnun hafi færri en 100 starfsmenn á Íslandi.
Guðjón Brjánsson alþingismaður flutti erindi þar sem hann nýtti m.a. reynslu sína sem forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands sem var fyrir nokkrum árum sameinuð úr nokkrum heilbrigðisstofnunum á Vesturlandi. Guðjón benti á mikilvægi þess að klára innleiðingu svona flókinna verkefna svo þau skili örugglega tilskildum árangri. Fram kom í máli Guðjóns að Ísland er í hópi þeirra ríkja heimsins þar sem flestir íbúarnir búa í höfuðborginni miðað við heildaríbúafjölda og m.a. þess vegna er mikilvægt að fjalla um byggðamál og byggðapólitík. Guðjón lagði áherslu á að þetta mikilvæga málefni sé rætt og haldið á lofti sem víðast því að tilhneigingin sé nær alltaf sú að ný opinber störf séu staðsett í Reykjavík. Hann benti janframt á að ný kynslóð ríkisstarfsmanna hefði mögulega aðrar þarfir varðandi störfin sem þurfi að taka tillit til, m.a. út frá tæknibreytingum.
Vífill Karlsson hagfræðingur hóf erindi sitt á því að varpa fram spurningunni, Hvers vegna búum við dreift? Svarið við því er ekki einfalt en aðalatriðið er að íbúar landsins hafi sem fjölbreyttust tækifæri til að starfa og búa hvar sem er á Íslandi. Þá benti hann á að aðföng eins og matvara er sjaldan framleidd innan borganna og því sér dreifð búseta mikilvæg fyrir framleiðslu þjóða. Einnig nefndi hann dæmi um ýmsa hvata, s.s. skattaafslætti, sem nágrannaþjóðir okkar hafa notað til að stuðla að dreifðri búsetu. Vífill sýndi ýmsa tölfræði sem staðfestir að störfum fjölgar hraðar á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og Vesturland kemur illa út úr þeim samanburði.
Valgarður Lyngdal Jónsson forseti bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar flutti erindi þar sem hann fór yfir það hvernig aðdragandi var að flutningi Landmælinga Íslands til Akraness þar sem bæjarstjórn sveitarfélagsins tók virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd þeirrar aðgerðar. Valgarður sagði einnig frá því að sveitarfélagið eigi í vök að verjast við að halda í opinber störf á Akranesi og sagði frá þeim tækifærum sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða t.d. í frábærum skólum og ódýrara húsnæðisverði bæði fyrir íbúðarhús og atvinnuhúsnæði. Valgarður sagði einnig frá því að á næstunni muni bæjarstjórn Akraness leggja fram ályktun til stjórnvalda um að höfuðstöðvar fyrirhugaðrar þjóðgarðastofnunar verði með aðsetur á Akranesi, með því að sameinast Landmælingum Íslands eða með sambýli við stofnunina.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir flutti erindi þar sem hún kynnti stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og lagði áherslu á að umræðuefnið sé mikilvægt og umfangsmikið. Hún sagði að reglulega þurfi að endurskoða pólitíska forgangsröðun varðandi það hvaða þjónustu og störfum ríkið eigi að sinna. Einnig kom fram í máli Þórdísar Kolbrúnar að ef opinber störf séu flutt út á land eða staðsett þar, þá þurfi þjónustan helst að batna frá því sem áður var auk þess þurfi að horfa til samfélagslegs ávinnings varðandi staðsetningu opinberra starfa á landbyggðinni. Hún nefndi t.d. námslánakerfið sem hvata til að fjölgað opinberum störfum á landbyggðinni á grundvelli þess að störf séu auglýst án staðsetningar.
Að lokum voru líflegar umræður í pallborði þar sem fyrirlesarar fengu spurningar úr sal.
Hér er að finna glærur frá málþinginu
Hér má horfa og hlusta á erindin á málþinginu.