Umhverfisstofnun og Landmælingar Íslands gera samstarfssamning
Samstarfssamningur sem undirritaður var 15. janúar á milli Landmælinga Íslands og Umhverfisstofnunar kveður á um samvinnu við öflun og miðlun landfræðilegra gagna og umhverfisupplýsinga. Eitt helsta markmið samningsins er að nýta þá sérfræðiþekkingu sem starfsfólk þessara stofnana býr yfir og samnýta gögn til þess að koma í veg fyrir tvíverknað. Samningurinn nær til samstarfs á sviði kortagerðar, landfræðilegra upplýsingakerfa, gæða- og tæknimála auk fræðslu til almennings sem varðar framangreind viðfangsefni.
Í samningnum felst að stofnanirnar hafi aðgang að gögnum hvors annars sem varða þessa málaflokka og geti notað þau til birtingar í skýrslum, fyrirlestrum, veggspjöldum, vísindagreinum eða vefnum.
Stofnanirnar munu gera með sér sérstaka verkefnaskrá sem endurskoðuð er á hverju ári sem kveður á um þau verkefni sem tekin verða fyrir. Verður verkefnaskráin hluti samningsins.