Umhverfis- og auðlindaráðherra í heimsókn á Landmælingum Íslands
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra heimsótti Landmælingar Íslands á Akranesi þann 16. maí 2018. Í för með ráðherra frá ráðuneytinu voru Sigríður Auður Arnardóttir ráðuneytisstjóri, Orri Páll Jóhannsson aðstoðarmaður ráðherra, Steinunn Fjóla Sigurðardóttir skrifstofustjóri, Kjartan Ingvarsson lögfræðingur og Bergþóra Njála Guðmundsdóttir upplýsingafulltrúi.
Á fundi með stjórnendum Landmælinga Íslands þeim Magnúsi Guðmundssyni forstjóra, Eydísi Líndal Finnbogadóttur forstöðumanni og Gunnari H. Kristinssyni forstöðumanni fékk ráðherra og gestir kynningu á starfseminni, áherslum og miklvægum grunnverkefnum til næstu ára á sviði grunnkortagerðar, landmælinga og grunngerðar landupplýsinga.
Þá heilsaði ráðherra upp á starfsfólk stofnunarinnar og fékk kynningu á ýmsum verkefnum s.s. skráningu örnefna, kortagerð vegna náttúruverndar, miðlun gjaldfrjálsra opinberra landupplýsinga, rekstur hnita- og hæðarkerfis Íslands, gerð nákvæmra hæðarlíkana og um kortlagningu landbreytingar.
Að lokum hitti ráðherra alla starfsmenn í fundarsal og fór yfir áherslumál sín og ríkisstjórnarinnar á sviði umhverfis- og auðlindamála þar sem loftslagsmál, ferðamál og náttúruvernd munu skipa stóran sess.