Traustar landupplýsingar
Þessa dagana stendur tuttugasti og sjötti aðildaríkjafundur Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26) yfir í Glasgow.
Eurogeographics, samtök evrópskra korta- og fasteignastofnana hafa lagt fram áskorun fyrir fundinn um að stjórnvöld viðurkenni gildi opinberra landupplýsinga í baráttunni við loftslagsbreytingar og mengun. Í skjalinu Applying Geospatial Information to Climate Challenges kemur fram að meira en nokkru sinni fyrr þurfi heimurinn nákvæm gögn sem hann getur treyst að séu uppfærð, endanleg og ítarleg.
Evrópskar kortastofnanir heita því um leið að vinna áfram að því að finna nýjar leiðir til að ná víðtækri notkun opinberra landupplýsinga í bæði evrópskum og alþjóðlegum kerfum. Á vegum Eurogeographics er það m.a. gert með því að búa til samevrópsk gagnasöfn sem eru samræmd um alla álfuna.
Landmælingar Íslands og Þjóðskrá Íslands eru meðlimir í Eurogeographics og situr Eydís Líndal Finnbogadóttir forstjóri LMÍ, í stjórn samtakanna.