Fara í efni

Tímamót í samstarfi kortastofnana á Norðurslóðum

Dagana 19.-20. febrúar 2014 funduðu forstjórar eða staðgenglar þeirra frá kortastofnunum Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Danmerkur (Grænland, Færeyjar), Bandaríkjanna, Kanada og Rússlands í stjórn verkefnisins Arctic SDI (Arctic Spatial Infrastructure). Fundurinn var haldinn í aðalstöðvum Korta- og jarðfræðistofnunar Bandaríkjanna US Geological Survey  sem er staðsett í Reston utan við Washington í Virginíufylki. Fundin sótti fyrir Íslands hönd Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands, en hann hefur verið formaður stjórnar verkefnsins frá árinu 2010.

Arctic SDI verkefnið snýst um að byggja upp grunngerð fyrir landupplýsingar á Norðurslóðum og að gera aðgengilegan á netinu stafrænan kortagrunn og er byggt á bestu fáanlegu gögnum sem kortastofnanir samstarfslandanna búa yfir. Vegna þess að um mjög stór svæði er að ræða þarf mikla samvinnu, gott skipulag og nýjustu tækni til að notendur geti í náinni framtíð fengið aðgang að stafrænum grunnkortum vegna fjölbreytilegra þarfa.

Á fundinum í Reston var undirritaður samstarfssamningur um verkefnið til næstu fimm ára auk þess sem samþykkt var verkáætlun og grunnskipulag varðandi stjórnsýslu og ákvarðanatöku í verkefninu. Magnús Guðmundssson forstjóri Landmælinga Íslands lét af stjórnarformennsku á þessum fundi og tók forstjóri Kanadísku kortastofnunarinnar Prashant Shukle við því hlutverki, en ákveðið hefur verið að formennskan fylgi því hvaða land hefur formennsku í Norðurskautsráðinu.

Arctic SDI verkefnið á sér nokkra sögu en á fundi forstjóra norrænna kortastofnana sem haldinn var í Illulissat á Grænlandi í september 2008 var samþykkt að beina því til Norðuskautsráðsins (Arctic Council) að kortastofnanir Norðurlandanna myndu hafa frumkvæði að því að byggja upp grunngerð fyrir landupplýsingar á norðurslóðum. Síðan þá hefur verið unnið að málinu í náinni samvinnu við aðrar kortastofnanir og Norðurskautsráðið.