Sumarvinnan skemmtileg og krefjandi
Frá árinu 2010 hafa Landmælingar Íslands ráðið sumarstarfsmenn á vegum Vinnumálastofnunar, sem í samvinnu við stjórnvöld hefur staðið fyrir átaki við að fjölga tímabundnum störfum fyrir atvinnuleitendur og námsmenn. Með þessu hefur stofnunin viljað legga sitt af mörkum til að sporna við atvinnuleysi og veita námsmönnum möguleika á þátttöku í atvinnulífinu. Mikill fengur hefur verið fyrir stofnunina að fá fólk tímabundið til starfa, meðal annars til að vinna verkefni þar sem ekki hefur verið nægur mannafli til að sinna sem skyldi. Þá má einnig líta svo á að sumarstörfin séu einskonar námskynning sem getur orðið hvatning fyrir skólafólk til að stunda nám eða bæta við sig námi sem snýr að, eða tengist starfsemi stofnunarinnar.
Nú í sumar var háskólaneminn Elín Carstensdóttir ráðin til starfa í tvo mánuði en Elín úskrifaðist úr tölvunarfræði frá HR síðastliðið vor. Við ræddum stuttlega við Elínu og spurðum hana um sumarstarfið, námið og framtíðaráformin.
Ég hef fengið að vinna við margskonar verkefni, meðal annars hef ég verið að forrita fyrir vefinn og að skanna inn loftmyndir úr loftmyndasafni stofnunarinnar. Vinnan hefur verið mjög skemmtileg, sérstaklega vegna þess að hingað til hef ég ekki fengið tækifæri til að sökkva mér ofan í vefforritun eins og ég er að gera núna. Það er mikið af skemmtlegum áskorunum sem eru alltaf að koma upp og sem er krefjandi að leysa. Ég hef lært heilmikið í sumar.
Elín hefur stundað nám við HR síðastliðin fjögur ár og í ágúst heldur hún til Bandaríkjanna í frekara nám. Í HR byrjaði ég á því að fara í hugbúnaðarverkfræði en eftir eitt ár ákvað ég að skipta yfir í tölvunarfræði. Áherslurnar eru ekki alveg þær sömu á þessum annars náskyldu námsbrautum og tölvunarfræðin heillaði mig meira. Námið var krefjandi en skemmtilegt á sama tíma. Það er mikið lagt uppúr því að leyfa nemendum að spreyta sig á verkefnum sem eru í takt við það sem er í gangi á vinnumarkaðnum. Ef nemendur eru með hugmynd að verkefni sem þeir vilja vinna með sjálfir, þá er oftar en ekki lítið mál að fá aðstoð frá kennurum og starfsfólki skólans. Þetta er frábært umhverfi að vera í og ég fékk sjálf tækifæri til að vinna við margs konar rannsóknarverkefni auk þess sem ég fékk að spreyta mig á því að vera dæmatímakennari. Það var alveg ómetanleg reynsla.
Elín mun vinna hjá Landmælingum Íslands út júlí en um miðjan ágúst heldur hún til Boston til að hefja doktorsnám í tölvunarfræði við Northeastern University. Mínar áherslur í náminu verða fyrst og fremst á tölvuleiki, gagnvirkar sögur og samspilið þar á milli. Það er mikið ókannað landsvæði þar og möguleikar á að skoða og útvíkka þessi fyrirbæri betur t.d. í samhengi við kennslu og þjálfun ýmis konar. Þetta er spennandi og ég er farin að hlakka mikið til, sagði Elín. Núna er allt að verða klárt og þá er bara að njóta þess að vera með fjöldskyldu og vinum þangað til að ég legg af stað.
Â