Fara í efni

Stórt skref í kortagerð á Íslandi

Á ársfundi Náttúrufræðinstofnunar sem haldinn var föstudaginn 12. apríl flutti Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands erindi um öflun landupplýsinga vegna IPA verkefnis um undirbúning á innleiðingu „Habitats“ og „Birds“ tilskipananna. Markmið verkefninsins, sem er samvinnuverkefni Landmælinga Íslands, Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar, er að undirbúa innleiðingu fugla- og vistgerðartilskipana með IPA stuðningi frá Evrópusambandinu. Hlutverk Landmælinga Íslands er að vinna við skilgreiningu og kaup á hæðarlíkani og fjölrása fjarkönnunargögnum. Einnig er stofnuninni ætlað að taka við gögnum, hýsa og sjá til þess að þau verði samhliða gerð aðgengileg öðrum opinberum aðilum.

Landmælingar Íslands fá gervitunglamyndir og hæðarlíkan af öllu landinu og verður gjaldfrjáls aðgangur allra innlendra stofnana að þessum gögnum. Gervitunglamyndirnar eru með 6,5 m greiningarhæfni og hafa þær þegar verið afhentar stofnuninni, uppréttar og hnitsettar. Landlíkanið er með 10 m möskvastærð og 5 m hæðarnákvæmni. Það er unnið úr tvenns konar gervitunglagögnum, optískum CARTOSAT gervitunglamyndum og COSMO-SkyMed radarmyndum. Landlíkanið verður afhent í byrjum árs 2014.

Með tilkomu þessara gagna er stigið stórt skref í kortagerð á Íslandi þar sem þau munu nýtast við hvers konar náttúrurannsóknir og umhverfiseftirlit. Gervitunglamyndir með mikilli greininhæfni verða sífellt mikilvægari rannsókna- og eftirlitsgögn s.s. í kortlagningu og við efitlit með umhverfisbreytingum. Þá stóreykur gjaldfrjálst aðgengi notkun þeirra og stuðlar að bættum rannsóknarniðurstöðum. Því má segja að nútíma umhverfiseftirlit og náttúrurannsóknir séu óhugsandi án þessara gagna og eru þau því gríðarlega mikilvæg.

Meðfylgjandi gervitunglamynd er RapidEye mynd af Urriðaholti sem tekin var 4. september 2012

Glærur frá erindi Magnúsar má finna á heimasíðu Landmælinga Íslands

 

Â