Skýrslur INSPIRE vinnuhópa birtar
Skýrslur vinnuhópa vegna innleiðingar INSPIRE verkefnisins um stafrænar landupplýsingar hafa nú verið gerðar aðgengilegar á vef Landmælinga Íslands.
Tilskipun Evrópusambandsins um notkun og miðlun stafrænna landupplýsinga (INSPIRE) lýtur að því að samræma og samnýta opinberar landupplýsingar, einkum í þágu umhverfismála. Ísland innleiddi tilskipunina árið 2011 vegna aðildar sinnar að Evrópska efnahagssvæðinu. Árið 2014 var sett af stað verkefni til stuðnings innleiðingu INSPIRE og laga um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar. Verkefnið var fjármagnað á grundvelli stefnu ríkis og sveitarfélaga um upplýsingasamfélagið 2013-2016, Vöxtur í krafti netsins.
Um er að ræða samstarfsverkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Landmælinga Íslands og er markmið verkefnisins að finna hvar gögn opinberra aðila eru geymd og hvort og þá hvernig þau falli undir INSPIRE tilskipunina. Þá er markmiðið að kortleggja (e. Schema mapping) gögnin að kröfum INSPIRE tilskipunarinnar og taka saman tillögur um hagræðingu á sviði landupplýsinga á Íslandi; hvort heldur með tilliti til verklags og verkefna eða laga og reglugerða.
Tekin voru fyrir þemu í samræmi við INSPIRE tilskipunina og settir á laggirnar vinnuhópar með tengiliðum stofnana sem eiga eða fara með gögn í hverju þema fyrir sig. Vinnuhóparnir ræddu gögn og umhverfi stofnana og komið var með tillögur að umbótum þar sem þurfti. Í einhverjum tilvikum var mögulegt að skilgreina ákveðin gagnasöfn sem svokölluð INSPIRE gögn Íslands en í flestum tilvikum beindust sjónir að samræmingarþörf stofnana og umbótum.
Unnið verður út frá aðgerðarpunktum vinnuhópanna hjá viðkomandi ráðuneyti eða stofnun og verður samantektarskýrsla einnig unnin og gerð aðgengileg á haustdögum. Hægt er að koma að athugasemdum við skýrslurnar á netfangið lmi(hja)lmi.is.