Fara í efni

Selfoss færðist til í skjálftanum

Frétt af mbl.is 24/9 2008, kl. 15:06. Mæla þarf land upp á nýtt eftir jarskjálftana í maí þar sem mælipunktar færðust til í atganginum. á fréttasíðunni suðurglugganum segir að Selfoss hafi færst til suðausturs um 17 cm og hækkað um 6 cm. Unnið er að endurmælingum að sögn Páls Bjarnasonar, tæknifræðings hjá Verkfræðistofu Suðurlands. Á næstu vikum verða GPS landmælingatæki notuð til að mæla upp aftur, leiðrétta og safna gögnum í samvinnu Landmælinga Íslands, Vegagerðarinnar, sveitarfélaganna ofl. Í samtali við Suðurgluggann segir Páll að tilfærslan geti verið heilmikið, en þó ekkert sem fólk finni beint fyrir. „Þetta gerðist líka eftir skjálftana árið 2000, en þá gekk færslan sem var um 10 cm á Selfossi að hluta til baka. Í skjálftunum í vor færðist Selfoss til um 17 cm til suð-austurs og hækkaði um 6 cm, en Hveragerði fræðist um 14 cm til norð-austurs. En þetta mun sennilega ganga að einhverju leyti til baka eins og árið 2000.“ Allar þessar færslur eru mældar út frá mælipunkti í Reykjavík. Mælipunktar í Árborg, Ölfusi og Hveragerði hafa alilr hnikast mikið til. Páll segir að mismunarins gæti mun meira í Hveragerði, nær upptökum skjálftanna, en á Selfossi eða Þorlákshöfn. Bæði geti verið um landris og landsig að ræða og nauðsynlegt að skoða breytingarnar vegna yfirstandandi framkvæmda og mælinga lóðamarka.