Samstarf við norsku kortastofnunina
Landmælingar Íslands og norska kortastofnunin Kartverket, http://www.kartverket.no/ vinna um þessar mundir að verkefni í Slóveníu sem styrkt er af Þróunarsjóði EFTA, http://eeagrants.org/ en sjóðurinn styrkir ýmis verkefni í nýjum aðildarlöndum ESB. Megin verkefnið er að koma upp nákvæmu hæðarkerfi svo auðveldara sé að varna flóðum, sem unnið hafa mikið tjón í Slóveníu á undanförnum árum. Þá er einnig unnið að uppbyggingu á grunngerð landupplýsinga, á grundvelli INSPIRE tilskipunarinnar, uppbyggingu á landupplýsingagrunnum og gerð vatnafarsgrunns í mikilli nákvæmni.
Verkefninu var ýtt úr vör núna í febrúar og er gert ráð fyrir verklokum árið 2016. Kostnaður við verkefnið nemur um þremur milljónum Evra en styrkur Þróunarsjóðs EFTA um tveimur milljónum evra. Framlag Landmælinga Íslands til verkefnisins verður aðallega á sviði ráðgjafar við landmælingar, gerð hæðarkerfis og útreiknings á nýrri geóíðu. Þá mun stofnunin einnig vinna að ráðgjöf um uppbyggingu á grunngerð landupplýsinga á grundvelli INSPIRE tilskipunarinnar. Allur kostnaður Landmælinga Íslands vegna þessarar vinnu verður greiddur af Þróunarsjóði EFTA.
Meðfylgjandi mynd var tekin á fundi sem haldin var í Slóveníu í byrjun febrúar. Annað og þriðja í röðinni f.h. eru Gunnar H. Kristinsson og Eydís L. Finnbogadóttir, sviðsstjórar hjá Landmælingum Íslands.