Samráðsfundur forstjóra sjö stofnana um ný lög um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar
Þann 2. september 2011 boðaði forstjóri Landmælinga Íslands til samráðsfundar með forstjórum eða staðgenglum frá sjö lykilstofnunum til að kynna ný lög um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar. Forstjórar sem boðaðir voru til fundarins eru frá Umhverfisstofnun, Vegagerðinni, Veðurstofu Íslands, Náttúrufræðistofnun, Skipulagsstofnun, Landgræðslu ríkisins og Þjóðskrá. Auk þess mætti fulltrúi umhverfisráðuneytisins á fundinn. Mögulegt er að fleiri stofnanir bætist í hópinn síðar.
Meginmarkmið fundarins var að kynna helstu þætti INSPIRE tilskipunarinnar og var lögð sérstök áhersla á mikilvægi góðs samstarfs þeirra stofnana og sveitarfélaga sem hlut eiga að máli. Þar þurfa allir sem búa yfir stafrænum landupplýsingum að leggja sitt af mörkum en ávinningurinn verður mikill fyrir alla. Verkefnið er flókið og þarf hver stofnun eða sveitarfélag að byrja á því að skrá sín gögn og koma upp góðu gagnaskipulagi til að hægt sé að miðla þeim í gegnum landupplýsingagátt á vefnum sem Landmælingar Íslands munu reka. Fundarmenn voru jákvæðir og telja að þetta sé mikilvægt og þarft verkefni til að bæta aðgengi að landupplýsingum á Íslandi. Mikilvægt er að stjórnendur setji verkefnið á dagskrá og fylgi því vel eftir.
Í lok fundarins var ákveðið að að hittast aftur í desember næstkomandi og fara yfir stöðuna í verkefninu.
Â