Samningar um töku loftmynda undirritaðir
Í fjárveitingabréfi Landmælinga Íslands 2019 var stofnuninni falið að undirbúa útboð á loftmyndaþekju af landinu til að tryggja jafnan aðgang opinberra aðila að slíkum gögnum.
Með hliðsjón af þarfagreiningu frá 2019, fundum með systurstofnunum Landmælinga Íslands á Norðurlöndum og fundum með hagaðilum var útboð á loftmyndaþekju af Íslandi auglýst 23. desember 2023 og sáu Ríkiskaup um útboðið fyrir hönd Landmælinga Íslands.
Alls buðu fjögur eftirfarandi fyrirtæki í loftmyndaþekju af Íslandi í byrjun árs 2024. Meixner, Field, Hexagon og Primul. Ákveðið var að semja við fyrirtækin Meixner og Hexagon um verkið og er tilboðsverðið um 234 milljónir. Gert er ráð fyrir að verkið verði unnið á þremur árum en fyrirtækin hafi þó allt að fimm ár til þess að mynda svæði sem eru erfið vegna veðurskilyrða. Samkæmt samningunum eiga fyrstu myndir að berast í síðasta lagi um næstu áramót.
Íslenska ríkið verður eigandi myndgrunnsins og í samræmi við lög um endurnot opinberra upplýsinga þá verða þau aðgengileg öllum án endurgjalds. Fjarkönnunargögn eru enda einn af sex meginflokkum svokallaðrar mjög verðmætra gagnasetta sem talin eru getað skapað umtalsverðan félagslegan, hagrænan og umhverfislegan ávinning, aukið nýsköpun, gagnast miklum fjölda notenda og skapa virði með því að samtvinna þau öðrum gagnasettum.
Það er mat Landmælinga Íslands og Ríkiskaupa að afar vel hafi tekist til við útboðið og mikill sparnaður sé af þessum samningum auk þess sem notagildi þessara gagna er mun meiri en þeirra sem íslenska ríkið hefur aðgang að í dag.