Samevrópsk kortagerðarverkefni
Hjá Landmælingum Íslands fer fram vinna við Evrópuverkefni undir stjórn EuroGeographics, við uppfærslu á þremur gagnagrunnum. Um er að ræða EuroBoundaryMap í mælikvarða 1:100 000, EuroRegionalMap í mælikvarða 1:250 000 og EuroGlobalMap í mælikvarða 1:1 000 000.
Vinnan felst í því að uppfæra árlega upplýsingar fyrir hvert land eftir fyrirfram ákveðinni áætlun. Framleiðslustjórn verkefnisins setur svo öll svæðin saman þannig að til verða saumlaus og samhæfð gögn yfir nær alla Evrópu.
Á hverju ári eru uppfærðar upplýsingar um stjórnsýslumörk og fólksfjölda í hverju sveitarfélagi fyrir EuroBoundaryMap. Vinna fyrir EuroRegionalMap fer fram í tveggja ára fösum sem þýðir að allt gagnasettið er uppfært á tveimur árum. Þannig voru mörk, vatnafar, örnefni og lagið ýmislegt, sem inniheldur m.a. upplýsingar um friðlönd, þjóðgarða og raflínu, uppfærð árið 2017. Árið 2018 verða mörk, samgöngur, byggðakjarnar og fólksfjöldi ásamt yfirborði uppfærð.
Uppfærsla á EuroGlobalMap er alfarið í höndum eins aðila í Evrópu sem tekur gögn úr hinum gagnagrunnunum og einfaldar þau fyrir þennan litla mælikvarða á samráði við tæknimenn frá hverju landi.
Til að gögnin séu einsleit yfir alla Evrópu þarf að fara eftir mjög ströngum forskriftum og það þarf að rökstyðja vel ef óskað er eftir undanþágu t.d. þegar sýna þarf fram á að malarvegir á Íslandi séu mikilvægir í samgöngunetinu. Þessi samræmdu gögn eru mjög mikilvæg til að geta samhæft ýmis verkefni þvert á landamæri en stærsti kaupandi þeirra er evrópska hagstofan EuroStat.
Nánari upplýsingar um gögnin má finna á lýsigagnagátt Landmælinga Íslands en einnig er hægt að hala þeim niður á niðurhalssíðu stofnunarinnar.