Þrívíddarlíkan af Surtsey
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur birt á vef sínum nýtt þrívíddarlíkan af Surtsey. Líkanið er byggt á um 1500 myndum sem teknar voru með dróna og úr þyrlu. Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga fóru til Surtseyjar í sumar í þeim tilgangi að kortleggja hana með þessari nýstárlegu tækni. Líkanið var unnið á nýrri loftljósmyndastofu Náttúrufræðistofnunar.
Líkön sem þessi nýtast ekki einungis til þess að sýna almenningi eyjuna í þrívídd, heldur einnig til þess að meta þær rúmmálsbreytingar sem orðið hafa frá því hún myndaðist. Loftmyndir hafa verið teknar af Surtsey nánast árlega síðan 1964.
Aðkoma Landmælinga Íslands að verkefninu fólst fyrst og fremst í því að mæla inn nákvæma myndpunkta fyrir drónaflugið. Auk þess voru gerðar enn nákvæmari GNSS mælingar á fastmerkjum sem finna má á eyjunni. Niðurstöður þeirra mælinga má nota til að meta landrek og hæðarbreytingar.
Â