Fara í efni

Á réttri leið

Í dag fór fram á Grand Hótel í Reykjavík ráðstefna um grunngerð stafrænna landupplýsinga undir yfirskriftinni „Á réttri leið?“  Að ráðstefnunni stóðu Landmælingar Íslands og umhverfis- og auðlindaráðuneytið, en um 80 manns frá ýmsum stofnunum og fyrirtækjum sóttu ráðstefnuna. Grunngerð stafrænna landupplýsinga er þegar orðin stór hluti af vinnuumhverfi þeirra sem vinna við landupplýsingar og á ráðstefnunni var meðal annars kynnt „Training program“ fyrir INSPIRE, á vegum eENVplus verkefnisins sem m.a. á að auðvelda opinberum aðilum að mæta kröfum INSPIRE tilskipunarinnar. Jafnframt var á ráðstefnunni gefið yfirlit yfir heildarferli í umsjón landupplýsinga þ.e. allt frá skipulagi gagna til framsetninga með þjónustum og að lokum notkun þeirra með appi í síma. Þá voru kynnt nokkur dæmi um það hvernig INSPIRE tilskipunin nýtist við innleiðingu grunngerðar landupplýsinga á Íslandi. Í lok ráðstefnunnar  fóru fram pallborðsumræður með Maríu Thors frá Orkuveitu Reykjavíkur, Þorvaldi Bragasyni frá Orkustofnun og Guðjóni Bragasyni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þar kom fram að innleiðing grunngerðar á Íslandi sé á réttri leið þó margt sé enn óunnið. Allir fyrirlestrar ráðstefnunnar voru teknir upp á myndbönd og verða þau ásamt glærum fyrirlesara gerð aðgengileg á vef Landmælinga Íslands á næstu dögum.
Meðfylgjandi myndir tók Guðni Hannesson.