Ársskýrsla 2017
Ársskýrsla Landmælinga Íslands fyrir árið 2017 er komin út. Í ársskýrslunni er farið yfir helstu verkefni stofnunarinnar á árinu og í ávarpi forstjóra kemur fram að árið 2017 hafi verið markvert meðal annars vegna þess að frumvarp til breytinga á lögum um landmælingar og grunnkortagerð var samþykkt einróma á Alþingi í lok maí. Breytingar á lögunum voru gerðar til að ryðja úr vegi hindrunum til að geta notað og miðlað sem bestum og nákvæmustum landupplýsingum og festa í sessi gjaldfrelsi gagna Landmælinga Íslands. Einnig var mikilvægt fyrir alla sem standa að framkvæmdum eða rannsóknum á Íslandi að ný útgáfa af Landshnitakerfi Íslands var kynnt í lok árs 2017. Nýja útgáfan er byggð á útreikningum og niðurstöðum endurmælinga á grunnstöðvanetinu sem fram fóru sumarið 2016. Með nýju Landshnitakerfi Íslands eykst nákvæmni kerfisins og um leið nákvæmni allra landmælinga á Íslandi.
Ársskýrslan er gefin út á rafrænu formi og er aðgengileg hér á vef stofnunarinnar.