Árlegur fundur Sameinuðu þjóðanna um aukna notkun landupplýsinga og kortagagna
Dagana 2. til 4. ágúst síðastliðinn var ársþing UN-GGIM haldið í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. UN-GGIM er titillinn á alþjóðlegu samstarfi undir merkjum Sameinuðu þjóðanna sem snýst um að auka og bæta notkun land- og tölfræðiupplýsinga og samræma vinnubrögð í þeim efnum. Um er að ræða landupplýsingar og kortagögn sem skipta miklu máli við vinnu þvert á landamæri ríkja t.d. þegar bregðast þarf við náttúruhamförum og öðrum áföllum, s.s. hungursneyð og farsóttum, í heiminum.
Á fundinum sem haldinn var í New York voru fluttar skýrslur vinnuhópa og fram fóru umræður um þær (sjá http://ggim.un.org/ggim_committee.html). Í langflestum tilfellum voru tillögur vinnuhópa um næstu skref samþykktar, auk þess sem oft urðu góðar umræður um þá faglegu þætti sem hóparnir fjalla um. Tveir nýir vinnuhópar sem voru settir á laggirnar fyrir ári síðan kynntu nú fyrstu skýrslur sínar, annars vegar er um að ræða hóp fulltrúa úr háskólum og hins vegar hóp fulltrúa einkafyrirtækja. Voru allir sammála um að tengingin við þessa aðila styrktu verkefnið í heild.
Þá var á fundinum ákveðið að stofna nýjan vinnuhóp um málefni hafsins og grunngerð hafsvæða og gæti aðild að þeim hópi verið gagnleg fyrir Ísland sem hefur yfir að ræða stóru hafsvæði. Einnig var samþykkt var að vinna að því öllum árum að auka samstarf og samhæfingu á starfi UN-GGIM og UNGEGN sem er vettvangur Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um örnefni um allan heim. Þessari ákvörðun er ætlað að nýta krafta Sameinuðu þjóðanna sem allra best og tryggja eðlilegt flæði upplýsinga og þekkingar á sviði landupplýsinga.
Landmælingar Íslands hafa verið virkur þátttakandi í þessu verkefni frá upphafi og fylgst vel með framvindu UN-GGIM verkefnisins. Þá eiga Hagstofa Íslands og Þjóðskrá Íslands aðkomu að verkefninu vegna þeirra mikilvægu gagna um land og þjóð sem stofnanirnar búa yfir og viðhalda. Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands sótti fundinn í New York fyrir Íslands hönd með dyggum stuðningi Fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.