Fara í efni

Nýtt landhæðarlíkan fyrir Ísland

Frá árinu 2015 hafa Bandaríkjamenn farið fyrir Norðurskautsráðinu sem er samstarfsvettvangur þeirra ríkja sem liggja að Norðurheimsskautssvæðinu. Samstarfið snýr að umhverfismálum, einkum loftslagsbreytingum, álitamálum varðandi nýtingu auðlinda og landakröfum á norðurslóðum. Eitt helsta framlag Bandaríkjamanna til vísindarannsókna á norðurslóðum að undanförnu er gerð landhæðarlíkans af öllu yfirborði lands fyrir norðan 60. breiddargráðu. Ísland er aðili að verkefninu og hafa Landmælingar Íslands og Veðurstofa Íslands veitt aðgang að nákvæmustu hæðargögnum sem stofnanirnar hafa yfir að ráða auk þess að hafa lagt fram vinnu við að meta gögnin. Verkefnið kallast ArcticDEM og landhæðarhæðarlíkanið, sem unnið er úr gervitunglamyndum, er í mikilli nákvæmni en þetta er í fyrsta skipti sem hæðarlíkan með svo mikla nákvæmni er gefið út á svona stóru svæði á norðurslóðum. Hægt er að skoða gögnin og hlaða þeim niður í kortavefsjá á vegum verkefnisins. Polar Geospatial Center hefur yfirumsjón með verkefninu og má nálgast upplýsingar um það á slóðinni http://www.pgc.umn.edu/arcticdem. Einnig er að finna góða grein um hæðarlíkanið á vef Veðurstofu Íslands.