Niðurstöður nýjustu CORINE-landflokkunar
Breytingar á landgerðum og landnotkun á Íslandi 2006 – 2012
Niðurstöður CORINE-flokkunar hjá Landmælingum Íslands
CORINE-flokkunin
CORINE (CORINE: Coordination of Information on the Environment, eða á íslensku: Samræming Umhverfisupplýsinga) er samevrópskt landflokkunarverkefni sem felur í sér kortlagningu á landgerðum og landnotkun í Evrópu með gervitunglamyndum. Flokkunin er endurtekin eða uppfærð á nokkurra ára fresti samkvæmt ákveðnum reglum en megintilgangur hennar er að afla sambærilegra umhverfisupplýsinga fyrir öll lönd Evrópu og fylgjast með breytingum sem verða á landnotkun í álfunni með tímanum. Fyrsta CORINE- flokkunin var gerð uppúr 1990 og var hún síðan uppfærð í fyrsta skipti árið 2000 (CORINE Land Cover 2000, eða CLC2000) en önnur og þriðja uppfærsla vorumiðaðarvið 2006 (CLC2006) og 2012 (CLC2012).
CORINE heyrir nú undir Copernicusar-áætlun ESB og er ásamt öðrum verkefnum sem snúa að umhverfisvöktun með gervitunglum í álfunni stjórnað af Umhverfisstofnun Evrópu, EEA, sem Ísland er fullgildur aðili að. CORINE er unnið í hverju aðildarlandi fyrir sig og útvegar EEA nýjar gervitunglamyndir til verksins í hvert sinn sem breytingar eru kortlagðar. CORINE landflokkunin á Íslandi fer fram hjá Landmælingum Íslands og í lok seinasta árs var lokið við að kortleggja þær breytingar sem urðu milli 2006 og 2012. Umfang verkefnisins (ásamt hliðarverkefnum sem fela í sér nákvæmari kortlagningu á nokkrum yfirborðsgerðum, s.s. skógum, graslendi og votlendi) er rúmlega 3 mannár og greiðir EEA mestan hluta kostnaðarins við vinnuna auk þess að útvega nýjar gervitunglamyndir verkefninu að kostnaðarlausu.
Þótt CORINE-verkefnið sé unnið með hjálp nýrra gervitunglamynda hjá Landmælingum Íslands koma fleiri innlendar stofnanir að verkefninu með því að útvega nauðsynleg gögn og upplýsingar. Helstar þeirra eru Veðurstofan, Náttúrufræðistofnun, Landbúnaðarháskólinn, Landgræðslan, Landsvirkjun og Háskóli Íslands.
Flokkunarreglur
CORINE flokkunarvinnan fer eftir ákveðnum reglum. Mikilvægustu stærðir í tengslum við flokkunina eru eftirfarandi:
- Mælikvarði CORINE-flokkunarinnar er 1:100 000 (1 cm á korti samsvarar 1 km)
- Kortlagningin fer fram með notkun gervitunglamynda. Mismunandi landgerðir þurfa að vera sýnilegar á gervitunglamynd með 20 m greinihæfni.
- Minnstu kortlögðu landgerðir eru 25 hektarar (d. 500 m x 500 m).
- Minnstu kortlögðu breytingar eru 5 ha.
- Stigskipt flokkunarkerfi í þremur þrepum: 5 grunnflokkar skiptast í 15 milliflokka sem greinast í 44 mismunandi landgerðir. Af þessum 44 landgerðum finnast 32 hér á landi.
- manngerð svæði
- landbúnaðarland
- skógar og önnur náttúruleg svæði
- votlendi
- vötn og höf.