Fara í efni

Ný uppfærsla á IS 50V gögnum

Á niðurhalssíðu Landmælinga Íslands er komin ný útgáfa sex gagnalaga af átta í IS 50V. Um er að ræða uppfærslu á örnefnum, mannvirkjum, samgöngum, vatnafari, strandlínu og hæðargögnum. Breytingar er mismiklar eftir lögum en flestar breytingar eru í örnefnalaginu, þar sem mikil og stöðug vinna fer fram við hnitsetningu. Skráning örnefna hefur aðallega farið fram á svæðum í Borgarfirði, Eyjafirði, Þingeyjarsveit, Sveitarfélaginu Hornafirði og Skaftárhreppi en á flestum stöðum er um að ræða mikla vinnu heimamanna og staðkunnugra.  Áfram var  unnið við  breytingar á línum í fláka við ströndina á Vesturlandi, sama má segja um línur á jöklum þá var mörgum flákum á ám breytt í línur. Vatnafarið hefur verið uppfært töluvert og allir jöklar landsins voru uppfærðir. Spot-5 gervitunglamyndir frá árunum 2011-2013 eru hafðar í bakgrunni og eru jöklarnir teiknaðir eftir þeim. Spot-5 myndirnar eru meginheimildin en  jöklalínur úr CORINE verkefni og jöklalínur frá Oddi Sigurðssyni hjá Orkustofnun eru hafðar til hliðsjónar.  Töluvert svæði norðan og sunnan Vatnajökuls hefur verið uppfært sem og svæðið við Þjórsárver. Punktalagið var uppfært með því að færa fossa og flúðir á rétta staði. Í tengslum við uppfærslu á vatnafarinu urðu einhverjar tilfærslur á „hjálparlínum“ í dálkinum adstodarlina í línulaginu, en lega strandlínunnar breyttist ekkert. Talsverðar breytingar og leiðréttingar voru gerðar í mannvirkjapunktalaginu en flákalagið er óbreytt á milli útgáfa. Flákalagið í samgöngulaginu er óbreytt en vegalagið breyttist þó nokkuð. Landmælingar Íslands mældu vegi í Djúpavogshreppi og þá aðallega fyrir ofan hálendislínu. Um er að ræða vegi sem sveitarfélagið var búið að flokka sem opna vegi en voru ekki til í grunni Landmælinga Íslands. Búið er að flokka vegi í Skaftárhreppi fyrir ofan hálendislínu (utan Vatnajökulsþjóðgarðs) og  fengu fáeinir vegir flokkunina „lokaðir vegir“ og „takmörkuð og tímabundin notkun vegar“.  Við það birtast þeir ekki lengur í útgáfulaginu. Nýjum vegum frá Vegagerðinni, m.a. nýjum Álftanesvegi og breytingum á vegstæði á Vestfjarðarvegi, var bætt við og leiðréttingar voru gerðar á öðrum vegum. Þá hefur vegayfirborðið verið endurskoðað og eigindataflan yfirfarin en alltaf eru einhverjar breytingar á vegnúmerum. Í hæðarlínum voru sett inn nýleg Lidargögn (2011) af Flateyjardal en punktalagið er óbreytt. Hægt er að sjá lýsigögn um IS 50V í Landupplýsingagátt Landmælinga Íslands.   Â