Ný uppfærsla á IS 50V gögnum
Á niðurhalssíðu Landmælinga Íslands er komin ný útgáfa fjögurra gagnalaga af átta í IS 50V. Um er að ræða uppfærslu á örnefnum, mannvirkjum, samgöngum og hæðargögnum. Breytingar er mismiklar eftir lögum en flestar breytingar eru í örnefnalaginu, þar sem mikil og stöðug vinna fer fram við hnitsetningu. Skráning örnefna hefur aðallega farið fram á svæðum í Borgarfirði, Vesturbyggð, Eyjafirði, Þingeyjarsveit, Sveitarfélaginu Hornafirði, Skaftárhreppi, Rangárþingi eystra og Flóahreppi en á flestum stöðum er um að ræða mikla vinnu heimamanna og staðkunnugra. Í hæðarlínum voru sett inn Lidargögn af Vatnajökli fá árinu 2011 og til samræmingar var punktlagið endurskoðað á því svæði. Breytingar og leiðréttingar voru gerðar í mannvirkjapunktalaginu og í mannvirkjaflákalaginu hafa verið settar inn nýjar upplýsingar um íbúafjölda frá Hagstofu Íslands. Flákalagið í samgöngulaginu er óbreytt en vegalagið breyttist aðeins, þar sem Sveitarfélagið Skagafjörður hefur lokið við sína flokkun á vegum fyrir ofan hálendislínu. Við það fengu fáeinir vegir flokkunina lokaðir vegir og takmörkuð og tímabundin notkun vegar og birtast þar með ekki lengur í útgáfulaginu. Húnavatnshreppur hefur einnig lokið við að meta vegi sveitarfélagsins fyrir ofan hálendislínu og fékk einn vegur flokkunina lokaður vegur. Klárað var að uppfæra vegi í þéttbýli með gögnum frá Samsýn ehf.
Hægt er að sjá lýsigögn um IS 50V í landupplýsingagátt Landmælinga Íslands.