Ný uppfærsla á IS 50V
Á niðurhalssíðu Landmælinga Íslands er komin ný útgáfa sex gagnalaga af átta í IS 50V. Um er að ræða uppfærslu á örnefnum, mannvirkjum mörkum, samgöngum, strandlínu og vatnafari.
Breytingar er mismiklar eftir lögum en flestar breytingar eru í örnefnalaginu og er það eina lagið þar sem stöðugt er unnið að uppfærslum. Frá síðustu útgáfu hefur verið skráð töluvert af örnefnum í Hvalfjarðarsveit, Borgarbyggð, Dalabyggð, Reykhólabyggð, Ísafjarðarbæ, Strandabyggð, Blönduósbæ, Sveitarfélaginu Skagafirði, Þingeyjarsveit, Vopnafjarðarhreppi, Breiðdalshreppi, Rangárþingi ytra og Flóahreppi.
Fjöldi örnefna er nú 114.526, en á árinu hafa bæst við 5236 örnefni og breytingar hafa verið gerðar á 9853 örnefnum. Þannig að alls eru nýskráningar og breytingar á 15.089 örnefnum.
Í markalaginu voru gerðar breytingar á línulaginu, mörk Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar breyttust vegna úrskurðar Óbyggðarnefndar og einnig breyttust mörk á milli Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar vegna Hæstaréttardóms. Fimm flákalög breyttust við þessa uppfærslu á línunum. Breytingar urðu á póstnúmeralaginu en sérstök póstnúmer voru tekin upp á svæðum í dreifbýli sem áður féllu undir sama póstnúmer og næsti þéttbýliskjarni (gildistaka 1.12.2017).
Vegalagið breyttist í samgöngulaginu, þar sem nýir vegir frá Vegagerðinni, eins og Norðfjarðargöng, voru settir inn. Einnig voru ýmsar leiðréttingar gerðar, t.d. er breytingin sem var gerð á hringveginum fyrir austan komin inn. þá hefur vegayfirborðið verið endurskoðað og eigindataflan yfirfarin en það eru t.d. alltaf einhverjar breytingar á vegnúmerum. Flákalagið (flugvellir) er hins vegar óbreytt.
Í vatnafarinu var notast við nýja gervitunglamynd frá Sentinel sem tekin var 30.ágúst síðastliðinn, til að uppfæra ár á Suðausturlandi á svæðinu frá Kúðafljóti austur að Hornafjarðarfljóti. Eftirfarandi ár hafa verið uppfærðar: Tungnaá, Kúðafljót, Eldvatn, Skaftá, Hverfisfljót, Núpsvötn, Gígjukvísl, Skeiðará, Skaftafellsá, Svínafellsá, Fjallsá, Kolgríma, Hólmsá, Kvíá og Hornarfjarðarfljót. Leirur við Ingólfshöfða og nokkur stöðuvötn upp við Skeiðarárjökul hafa verið lagfærð. Vatnafarið í kringum Holuhraun var einnig uppfært.
Strandlínan var uppfærð við Eskifjörð. Í tengslum við uppfærslu á vatnafarinu urðu einhverjar tilfærslur á hjálparlínum í dálkinum adstodarlina í línulaginu. Þá voru breytingar og leiðréttingar gerðar í mannvirkjapunktalaginu en í flákalaginu voru smávægilegar breytingar.
Hægt er að sjá lýsigögn um IS 50V í landupplýsingagátt Landmælinga Íslands.
Einnig er hægt að nálgast IS 50V í gegnum ýmsar þjónustur (wms, wfs og wmts). Hér eru leiðbeiningar hvernig er hægt er að nálgast gögn Landmælinga Íslands í gengum þjónustur https://leidbeiningar.lmi.is/?page_id=404).