Ný uppfærsla á IS 50V
Á niðurhalssíðu Landmælinga Íslands er komin ný útgáfa sex gagnalaga af átta í IS 50V kortagrunni stofnunarinnar. Um er að ræða uppfærslu á örnefnum, mannvirkjum mörkum, samgöngum, strandlínu og vatnafari.
Breytingar er mismiklar eftir lögum en flestar breytingar eru í örnefnalaginu þar sem mikil og stöðug vinna fer fram allt árið. Frá síðustu útgáfu hefur talsvert verið skráð af örnefnum í 17 sveitarfélögum víðsvegar um landið en þau eru: Hvalfjarðarsveit, Borgarbyggð, Dalabyggð, Kaldrananeshreppur, Skagabyggð, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Norðurþing, Vopnafjarðarhreppur, Fljótsdalshérað, Fjarðabyggð, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Hrunamannahreppur og Sveitarfélagið Vogar.
Þó nokkrar breytingar og leiðréttingar voru gerðar í mannvirkjapunktalaginu og nú er um 23 þúsund mannvirki í punktalaginu. Í flákalaginu komu nýjar upplýsingar um íbúafjölda frá Hagstofunni.
Í mörkum voru gerðar breytingar á línulaginu, mörk sem liggja eftir árfarvegum voru uppfærð þar sem vatnafar hafði áður verið uppfært með því að nota loft- og gervitunglamyndir. Einnig er búið að uppfæra línur eftir hnitum sem voru til staðar í heimildagrunni. Flest flákalögin breyttust við þessa uppfærslu á línunum.
Engar breytingar voru gerðar á flákalaginu í samgöngum en vegalagið breyttist aðeins. Nýir vegir frá Vegagerðinni voru settir inn og leiðréttingar gerðar. Einnig hefur vegayfirborðið verið endurskoðað og eigindataflan yfirfarin en t.d. eru alltaf einhverjar breytingar á vegnúmerum. Strandlínan var uppfærð við Reykjavíkurhöfn og á Grundartanga. Í tengslum við uppfærslu á vatnafarinu urðu einhverjar tilfærslur á hjálparlínum í dálkinum adstodarlina í línulaginu. Vatnafarið var uppfært í Gígjukvísl, í hluta Núpsvatna og í kringum Skeiðará, fáeinir virkjunarskurðir bættust einnig við línulagið.
Hægt er að sjá lýsigögn um IS 50V í landupplýsingagátt Landmælinga Íslands. Einnig er hægt að nálgast IS 50V í gegnum ýmsar þjónustur (wms, wfs og wmts). Hér eru leiðbeiningar um hvernig hægt er að nálgast gögn Landmælinga Íslands í gegnum þjónustur https://leidbeiningar.lmi.is/?page_id=404.