Fara í efni

Ný stefnumótun fyrir Landmælingar Íslands 2011-2015

Fyrir skömmu lauk verkefni sem staðið hefur yfir í þrjá mánuði hjá Landmælingum Íslands við að móta nýja stefnu fyrir tímabilið 2011-2015. Allir starfsmenn tóku þátt í vinnunni sem var leidd af fjögurra manna stýrihópi starfsmanna í samstarfi við Eyþór Ívar Jónsson sérfræðing í stefnumótun. Aðkoma allra starfsmanna stofnunarinnar leiddi til gagnlegra skoðanaskipta um tækifæri og ógnanir í starfseminni auk þess sem í ljós kom mikilvægi nýsköpunar og meiri áhersla en áður á samstarf við aðrar stofnanir og fyrirtæki. Mikil breyting hefur orðið á starfsumhverfi Landmælinga Íslands undanfarin ár vegna aukinnar notkunar almennings á kortum og öðrum landupplýsingum auk örrar tækniþróunar á þessu sviði. Einnig er nú fyrir Alþingi frumvarp til laga um grunngerð landupplýsinga sem miðar að því að auka notkun og miðlun landupplýsinga hjá opinberum stofnunum og sveitarfélögum. Samkvæmt frumvarpinu er  Landmælingum Íslands ætlað að hafa forystu við að byggja upp grunngerð landupplýsinga á Íslands sem mun væntanlega hafa jákvæð áhrif á starfsemina á næstu árum. Auk framangreindra breytinga þá eru gögn Landmælinga Íslands mikilvæg til að styðja stefnumótun stjórnvalda á ýmsum sviðum s.s. á sviði framkvæmda, skipulagsmála, umhverfismála og vöktunar á náttúruvá. Nákvæmni, notagildi og nýsköpun Í nýrri framtíðarsýn fyrir Landmælingar Íslands segir að „Landmælingar Íslands hafi forystuhlutverk og stuðli að samvinnu við að tryggja tilvist og aðgengi að traustum landupplýsingum um Ísland og stuðli að notkun þeirra á fjölbreyttan og hagkvæman hátt, ekki síst í þágu umhverfismála.“ Einnig segir að „Landmælingar Íslands séu framsækin þekkingarstofnun í stöðugri þróun þar sem nákvæmni, notagildi og nýsköpun eru grundvöllur starfseminnar“. Stefnumótunina má lesa hér (pdf 1mb)