Fara í efni

Ný lög um örnefni samþykkt á Alþingi

Fyrstu heildarlög um örnefni á Íslandi voru samþykkt á Alþingi í gær 3. mars 2015. Markmið laganna er meðal annars að stuðla að verndun örnefna og nafngiftarhefðar í landinu sem hluta af íslenskum menningararfi og tryggja að honum verði viðhaldið handa komandi kynslóðum. Einnig að samræma stjórnsýslu við skráningu örnefna þannig að ferli nafngifta sé opið, gagnsætt og skilvirkt. Við gildistöku laganna urðu breytingar á lögum um landmælingar og grunnkortagerð nr. 103/2006, sem meðal annars lúta að örnefnagrunni. Þar kemur fram Landmælingar Íslands skuli sjá um skráningu, viðhald og miðlun örnefnagrunns í samráði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Einnig kemur fram að innihald gagnagrunnsins skuli vera aðgengilegt og endurnot þess án gjaldtöku og í samræmi við ákvæði upplýsingalaga nr 140/2012. Þá kemur fram að Landmælingar Íslands skulu gera almenningi kleift að skrá örnefni í sérstakan gagnagrunn á vegum stofnunarinnar. Sjá: http://www.althingi.is/altext/144/s/0997.html