Ný jarðstöð á Snæfellsnesi
Landmælingar Íslands reka net svokallaðra GPS/GNSS jarðstöðva, sem safna stöðugt staðsetningargögnum og geta þannig m.a. gefið upplýsingar um jarðskorpuhreyfingar. Mæligögn frá stöðvunum streyma svo til stofnunarinnar í rauntíma og eru aðgengileg á vef hennar.
Á Snæfellsnesi var árið 2011 hafist handa við að setja upp stöð á hól einum nálægt Gufuskálum. Sú uppsetning gekk vel en þegar ræsa átti nýja GNSS mótttakarann reyndist hann bilaður og fóru gárungar stofnunarinnar þá strax að tala um hólinn sem álfhól. Síðan þá hefur í raun allt bilað sem getur bilað, fjarskipti hafa verið erfið og síðasta raunin voru langvarandi rafmagnstruflanir í óveðrinu um jólin. Þrautseigja starfsmanna Landmælinga Íslands og Veðurstofunnar er þó mikil og virðast þeir hafa haft betur í baráttunni við náttúru- og hulduöflin, í bili a.m.k. Þrátt fyrir byrjunarörðuleika er hægt að gleðjast yfir því að stöðin við Gufuskála er ellefta jarðstöðin sem tengd hefur verið við ört stækkandi jarðstöðvakerfi Landmælinga Íslands.