Ný aðgerðaráætlun um uppbyggingu, rekstur og viðhald grunngerðar fyrir stafrænar landupplýsingar um Íslands
Landmælingar Íslands í samvinnu við fulltrúa fjölmargra ríkisstofnana, sem hafa með landupplýsingar að gera, hafa unnið drög að nýrri Aðgerðaráætlun um uppbyggingu, rekstur og viðhald grunngerðar fyrir stafrænar landupplýsingar um Ísland. Aðgerðaráætlunin tekur við af gildandi áætlun sem var staðfest af umhverfis- og auðlindaráðherra 20. desember 2013, og var til fimm ára. Í nýrri aðgerðaráætlun eru sett fram átta meginverkefni sem unnin verða á næstu fimm árum eða á gildistíma áætlunarinnar. Sum þessara verkefna eru sömu eða svipuð og í fyrri áætlun en þó þannig að reynt var að einfalda þau og gera skýrara hver afurð þeirra á að vera. Í skýrslunni er jafnframt tímalína þessara verkefna sem sett er fram til að auðvelda yfirsýn yfir verkefnið. Landmælingar Íslands leiddu vinnuna við nýja aðgerðaráætlun og segir Eydís Líndal Finnbogadóttir, nýráðin forstjóri stofnunarinnar sem leiddi verkefnið, að aðgerðaráætlunin sé raunhæf en krefjist þess þó að ríkisstofnanir verði samstíga í að gera gögn sín aðgengileg og setji aðgengimálin í forgang. Nú þegar sé hægt að skoða kortagögn mismunandi ríkisstofnana saman í svokallaðri landupplýsingagátt en einnig er hægt að skoða lýsigögn enn fleiri gagnasetta í lýsigagnagátt. Ætlunin er að innan skamms verði hægt að fá aðgengi að landupplýsingum allra stofnan og sveitarfélaga með sama hætti, auk lýsigagna um þau. Við ættum að geta verið best í heimi í aðgengi að opinberum landupplýsingum, ef við erum samstíga segir Eydís en hún bendir þó á að hér á landi er enn mikill skortur á grunngögnum hins opinbera, sem telst sjálfsagt að séu til hjá þjóðum allt í kringum okkur. Þegar aðgengið verður orðið gott, að því sem til er, sjáum við líka hvar skóinn kreppir í þessum málum. Til stendur að Umhverfis- og auðlindaráðherra staðfesti nýja Aðgerðaráætlun um grunngerð landupplýsinga samkvæmt lögum um Grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar nr. 44/2011. Þeir sem vilja koma athugasemdum eða ábendingum (bæði um það sem er gott og það sem mætti betur fara) á framfæri er bent á að senda þær á lmi@lmi.is merkt: Athugasemdir aðgerðaráætlunar 2019