Fara í efni

Móttakarar að gjöf frá Noregi

Norrænt og alþjóðlegt samstarf er gríðarlega mikilvægt fyrir starfsemi Landmælinga Íslands (LMÍ). Á dögunum bárust stofnuninni að gjöf, 20 notaðir GNSS móttakarar frá norsku kortastofnuninni Kartverket. Þessir móttakarar verða notaðir til að bæta gæði og áreiðanleika IceCors jarðstöðvakerfis LMÍ. „Nýju“ móttakarnir hafa það umfram núverandi móttakara í kerfinu að geta tekið við merkjum frá flestum staðsetningakerfum heimsins. (GPS, GLONASS, Galileo, BeiDou o.fl.) auk þess að hafa innbyggðan búnað til fjarskipta.

 

Hlutverk IceCors jarðstöðvakerfisins er að auka afköst, bæta nákvæmni og áreiðanleika allra landmælinga á Ísland, hvort sem um er að ræða framkvæmdamælingar eða mælingar vegna vöktunar á náttúru landsins t.d. jarðhræringar. LMÍ sjá um rekstur og halda utan um kerfið. Jarðstöðvakerfi LMÍ samanstendur af 13 jarðstöðvum í eigu LMÍ, 17 eru í eigu Veðurstofu Íslands og þrjár eru reknar í samstarfi við erlendar landmælingastofnanir. Í stuttu máli þá samanstendur hver jarðstöð af GNSS/GPS loftneti, móttakara sem stjórnar gagnasöfnuninni og router sem kemur gögnum yfir internetið til móðurtölvu sem er staðsett hjá LMÍ. Tækjabúnaðurinn mælir allan sólarhringinn allt árið um kring.

 

Veittur er aðgangur að öllum þeim gögnum sem til verða. Hvort sem það er vísindasamfélaginu til rannsókna á jarðskorpuhreyfingum og breytingum á yfirborði sjávar, eða sveitarfélögum, einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum fyrir GNSS/GPS mælingar sem þar eru gerðar. Einnig er sent út í rauntíma leiðréttingamerki sem notendur GNSS/GPS tækja geta notað til þess að leiðrétta mælingar sínar og staðsetningu. Gögnin og þjónustan er öll án endurgjalds.