Fara í efni

Mælingar sumarsins

Sérfræðingar Landmælinga Íslands unnu í sumar að GPS-mælingum í Landshæðarnetinu á Suðurlandi og hæðarmælingum á Kili. Gerðar voru endurmælingar á 22 fastmerkjum frá Kálfafelli að Höfn í Hornafirði. Þessi fastmerki voru síðast mæld árið 2002 en tilgangur með mælingunum er að fylgjast með hæðarbreytingum í Landshæðarkefinu, enda kveður reglugerð um Landshæðarkerfið ISH2004 á um að mæla skuli fastmerki í Landshæðarkerfinu á 10 ára fresti. Mælitími í hverju fastmerki var lengdur frá því sem var þegar síðast var mælt og má því búast við að sporvöluhæðir fastmerkjanna verði nákvæmari en var árið 2002. Til samanburðar má geta þess að mælitíminn var 2x3 tímar árið 2002 en núna um tveir sólarhringar. Með þessu er vonast til að hægt sé að bæta geóíðunna á svæðinu, en þar hafa mörg af stærstu frávikunum verið til þessa.

Hæðarmælingar á Kili fóru fram í ágúst og eru þær hluti af áframhaldandi uppbyggingu á Landhæðarkerfinu ISH2004. Mælt var frá Bláfellshálsi að Fremri Skúta auk þess sem tenging í grunnstövanetspunktinn OS7482 (Hvítárvatn) var mæld, alls um 20 km. Þá voru fastmerki sett niður að Innri Skúta og staðsetning valin fyrir fastmerki að grunnstöðvanets-punktinum LM0527 (Kjalhraun).

Stefnt er að því að framkvæma þyngdarmælingar á línunni yfir Kjöl í haust, þ.e. frá Guðbjarnarholti að Hveravöllum.

Â