Mikill áhugi landsmanna á skráningu örnefna
Undanfarin ár hefur farið fram mikil vinna hjá Landmælingum Íslands við söfnun og skráningu örnefna. Vitneskja um staðsetningu örnefna er víða að tapast og til að bjarga þessum menningarverðmætum frá glötun er brýn þörf á aðkomu eldri kynslóða við söfnun og skráningu þeirra. Mikilvægt er að vinna með staðkunnugum heimamönnum og hafa starfsmenn Landmælinga Íslands hitt fólk víðsvegar á landinu vegna þessarar vinnu.
Á dögunum var nýr skráningarvefur tekinn í notkun og starfsfólk Landmælinga Íslands vinnur nú að því að kenna skráningaraðilum á vefinn. Í síðustu viku fóru tveir starfsmenn til Húsavíkur og Egilsstaða og héldu námskeið fyrir skráningaraðila. Áhugi heimamanna lét ekki á sér standa og á Húsavík mættu níu skráningaraðilar sem skrá örnefni í Þingeyjarsýslunum og Eyjafirði. Á Egilsstöðum mættu ellefu skráningaraðilar sem skrá örnefni á Fljótsdalshéraði. Á Héraði eru einnig mjög margir einstaklingar sem skrá örnefni af jörðum sínum beint á myndir sem starfsfólk Landmælinga Íslands sér síðan um að koma inn í örnefnagrunninn. Ljóst er að mikill áhugi er meðal landsmanna á skráningu örnefna og hefur fjöldi fólks haft samband við stofnunina eftir að starfsmaður Landmælinga Íslands óskaði eftir skráningaraðilum, á facebókarsíðu um örnefni og staðhætti.
Verndun örnefna og nafngiftarhefða í landinu er mikilvægur hluti af íslenskum menningararfi og mikilvægt að tryggja að þessum menningararfi verði viðhaldið handa komandi kynslóðum.