Fara í efni

Markmiði um skráningu lýsigagna fyrir árið 2014 náð

Nú eru liðin þrjú ár síðan Landupplýsingagáttin var opnuð og tímabært að skoða hvaða þróun hefur átt sér stað á skráningu lýsigagna.  Fljótlega eftir að gáttin var opnuð, árið 2012, héldu Landmælingar Íslandsnámskeið um skráningu lýsigagna. Í framhaldi voru 50 gagnasett skráð  en þeim fækkaði á árinu 2013 um tæplega 20 og mikil hreyfing var á skráningu það árið. Þetta er í samræmi við reynslu annara landa sem vinna að sama verkefni. Grunngerð landupplýsinga endurspeglast að einhverju leiti í „geoportal“  hvers lands. Þegar ákveðin þróun hefur átt sér stað fækkar skráningum og síðan fer þeim að fjölga smátt og smátt. Í lok ársins 2013 voru 32 skráningar tilbúnar og 10 í drögum en í lok árs 2014  voru 104 skráningar í gáttinni og 21 í drögum. Hástökkvari ársins var Náttúrufræðistofnun Íslands sem skráði lýsigögn fyrir 18 gagnasett eða kort. Í byrjun ársins 2014 var lagt upp með að 10 stofnanir og sveitarfélög bættust í notendahópinn og var því markmiði náð, þó svo að stofnanirnar hafi ekki allar hafið skráningu, en Fiskistofa, Forsætisráðuneytið og Náttúrfræðistofnun hófu skráningu á árinu. Landupplýsingagáttin er hluti af stærri mynd sem teygir anga sína um alla Evrópu. Hér er að sjálfsögðu verið að tala um INSPIRE verkefnið sem tekur til grunngerðar landupplýsinga um alla Evrópu. Var Landupplýsingagáttin skráð inn í INSPIRE GEOPORTAL þar sem öll skráð lýsigögn í sambærilegar gáttir mætast. Nú þegar notendur eru byrjaðir að breyta eða uppfæra lýsigögn sem hafa verið skráð er rétt að benda á að eldri skráningar eru ekki geymdar í Landupplýsingagáttinni, þ.e.a.s. þær skráningar sem er breytt eða hent eru ekki varðveittar. Hugmyndin á bak við Landupplýsingagáttina er ekki að varðveita sögu tiltekinna gagna heldur að hafa nýjustu útgáfur aðgengilegar. Varðveisla eldri útgáfa eru á ábyrgð hverrar stofnunar en hægt er að taka afrit af eldri útgáfum úr gáttinni áður en nýjum er hlaðið upp eða eytt. Á árinu 2014 voru leiðbeiningarnar vegna lýsigagnagáttarinnar uppfærðar. Eftir sem áður eru notendur hvattir til að hafa samband við grunngerðarhóp Landmælinga Íslands ef einhverjar spurningar eru eða ábendingar um eitthvað sem mætti betur fara.