Magnús Guðmundsson skipaður varaformaður verkefnisstjórnar rammaáætlunar
Umhverfis- og auðlindarráðherra hefur skipað verkefnisstjórn rammaáætlunar til næstu fjögurra ára. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er að vera ráðherra til ráðgjafar við undirbúning að gerð tillagna fyrir verndar- og orkunýtingaráætlun, sbr. 8. – 11. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Verkefnisstjórnin fjallar um virkjunarhugmyndir og landsvæði í samræmi við beiðnir þar um og getur einnig endurmetið virkjunarhugmyndir og landsvæði gildandi áætlunar.
Í verkefnisstjórninni sitja tólf aðilar, flestir tilnefndir af ráðuneytum ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga og hefur mhverfis- og auðlindaráðherra skipað Magnús Guðmundsson, forstjóra Landmælinga Íslands varaformann verkefnisstjórnarinnar.
Markmið laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun er að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið leggur ríka áherslu á að verkefnisstjórnin starfi með þeim hætti að tryggt sé að almenningur hafi virka aðkomu og félagasamtök taki virkan þátt í öllu starfi við rammaáætlun.