Fara í efni

LMÍ þátttakendur í INSPIRE námskeiði

INSPIRE námskeið á vegum EuroSDR á netinu í apríl 2011 INSPIRE vefnámskeið var haldið á vegum EuroSDR í apríl 2011 sem stóð í þrjár vikur. Tveir starfsmenn LMÍ unnu sameiginlega að námsefni námskeiðsins en í hverri viku fengu þátttakendur 11-12 spurningar til að svara og nokkur stærri verkefni (s.s. skrifa skýrslu, nota INSPIRE sniðmát eða greina samræmi gagna). Námsefnið var mjög umfangsmikið og náði yfir mikinn hluta INSPIRE-tilskipunarinnar og reglugerða. Námsefni fyrstu vikunnar var INSPIRE-tilskipunin og bakgrunnur hennar, framtíðarsýn, ferlar og tengsl við aðrar Evróputilskipanir. Hvað nær INSPIRE yfir og hvað ekki, hvað þýðir tilskipunin fyrir almenning og einkaaðila í GI (Geographic Information) atvinnulífinu. Áhersla  námskeiðsins í annarri viku var á lýsigögn og skilgreiningar fyrir gögn og þjónustu. Framkvæmdareglurnar voru ræddar í smáatriðum, svo og tæknilegar og  leiðbeinandi reglur (guidelines), með sérstakri áherslu á aðferðarfræði og skýringar með raunverulegum dæmum. Þá voru einnig rædd tengsl við alþjóðlega staðla frá ISO, CEN og OGC. Í síðustu viku námskeiðsins var megináherslan lögð á hvernig á að meta samræmi og árangur af mismunandi þáttum grunngerðar fyrir landupplýsingar hvers lands (NSDI – National Spatial Data Infrastructure) við ákvæði INSPIRE og farið yfir mismunandi aðferðir sem þegar er verið að nýta til að mæla árangur SDI. Eftirlit með INSPIRE framkvæmdinni og árangri í NSDI, samræmi í gagnagrunnum og lýsigögn voru einnig meðal efnis á námskeiðinu. Frekari upplýsingar og aðgengi að námsefni námskeiðsins er hægt að fá hjá Landmælingum Íslands.