Fara í efni

Ljósmyndir danskra landmælingamanna

„Um aldamótin 1900 hófu danskir mælingamenn nákvæmar mælingar af strandlínu Íslands og lögðu þar með grunninn að fyrstu myndinni af útlínum landsins, strandkortinu, sem var upphaf kortagerðar þeirra af landinu. Það var þó ekki fyrir en í byrjun 20. aldar að Danir hófu kortlagningu af fullum krafti og var verkið í megindráttum unnið í tveimur áföngum. Sá fyrri var frá aldamótum til ársins 1914 en hinn síðari milli heimstyrjaldanna tveggja“. Frá þessu segir í formála bókarinnar Landmælingar og kortagerð Dana á Íslandi, efti Ágúst Böðvarsson, sem kom út árið 1996. Í safni Landmæliga Íslands er að finna nokkuð af ljósmyndum sem dönsku landmælingamennirnir tóku í upphafi síðustu aldar, flestar frá árunum 1900 til 1910. Myndirnar bárust í stórri gjöf frá dönsku landmælingastofnuninni til Landmælinga Íslands vorið 1985. Ljósmyndirnar voru á glerplötum og myndaspjöldum, flestar þrívíddarmyndir/steriomyndir og um 70 myndir voru í tví- eða þrítökum svo að heildarfjöldi myndanna telst vera 555 myndir. Hjá Landmælingum Íslands hefur verið unnið að því undanfarin ár að koma gömlum kortum, bæjarteikningum og umræddum ljósmyndum á rafrænt form og eru þessi sögulegu gögn nú aðgengileg á vef stofnunarinnar. Hjá stofnuninni hefur einnig verið unnið að því að staðsetja ljósmyndirnar, m.a. með hjálp almennings og hafa 329 ljósmyndir þegar verið staðsettar en þær er hægt að sjá í einni af kortasjám stofnunarinnar. Enn leitum við aðstoðar landsmanna við að staðsetja myndirnar og hvetjum fólk til að skoða þær á vef stofnunarinnar http://www.lmi.is/ljosmyndir-danskra-landmaelingamanna/ og staðsetja myndir, þar sem fólk þekkir t.d. landslag eða hús . Nákvæmar leiðbeiningar um hvernig á að staðsetja myndirnar eru á vefnum og er fólk hvatt til að fylgja þeim. Â