Landshnitakerfi Íslands endurmælt sumarið 2016
Í gær hófst formlega endurmæling á grunnstöðvaneti Íslands. en slík endurmæling er nauðsynleg til að viðhalda nákvæmni í landshnitakerfinu sem aflagast vegna mikilla jarðskorpuhreyfinga hér á landi. Landshnitakerfið og viðmiðun þess er grundvöllur annarra landmælinga hér á Íslandi og þar með undirstaða stafrænnar kortagerðar, landfræðilegra upplýsingakerfa, vöktunar og verklegra framkvæmda.
Grunnstöðvanetið hefur verið mælt tvisvar áður með GPS-tækni, fyrst árið 1993 og svo aftur árið 2004. Að þessu sinni er gert ráð fyrir að mæla 123 fasta punkta í kerfinu auk þess að nota síritandi GPS-mælingar frá um 100 föstum jarðstöðvum Landmælinga Íslands og samstarfsaðila. Að mælingum loknum tekur við eftirvinnsla og útreikningar með það lokamarkmið að skilgreina og gefa út nýja viðmiðun fyrir Ísland, ISN2016. Mjög mikilvægt er að sú viðmiðun komist sem fyrst í notkun hjá framkvæmdaaðilum því gera má ráð fyrir að bjögun í núgildandi viðmiðun (ISN2004) sé 20-25 cm og bjögun ISN93 sé 40-50 cm.
Til verkefnisins fékkst sérstök fjárveiting úr ríkissjóði en Vegagerðin styður einnig myndarlega við verkefnið auk Landsvirkjunar og Landhelgisgæslu. Fyrir þessar stofnanir er augljós ávinningur af því að viðhalda nákvæmni hnitakerfisins en hið sama gildir um ýmsar aðrar stofnanir, sveitarfélög og einkafyrirtæki sem tengja landmælingar við hnitakerfið t.d. við kortagerð, skipulagsmál og verklegar framkvæmdir