Fara í efni

Landmælingum Íslands gefið gamalt Íslandskort

Landmælingum Íslands barst merkileg gjöf á dögunumþegar Þór Gunnarsson úr Hafnarfirði færði stofnuninni meira en 100 ára gamalt Íslandskort. Útgefandi kortsins er Morten Hansen, Reykjavík en ekki kemur fram hvenær kortið er gefið út. . Þór hefur átt kortið í um 60 ár og þar á undan var það í eigu föður hans.

Á vefsíðu Landsbókasafns Íslands, timarit.is, fannst umfjöllun um þetta kort í tímaritinu Stefni, 5. árg. 1. tbl. 1897 á bls. 2. Þar segir undir fyrirsögninni ÍSLANDSKORTIÐ NÝJA: „Loksins höfum vjer fengið kort af Íslandi, hentugt við kennslu í skólum og heimahúsum. Útgefandi þess er hinn góðkunni barnaskólakennari Morten Hansen í Reykjavík, sem nýlega gaf út landafræði fyrir barnaskóla, er óhætt má fullyrða að sje ein af beztu alþýðukennslubókum, er vjer höfum. Undarlegt er það, að hinir mörgu og duglegu bóksalar vorir og forleggjarar skuli ekki fyrir löngu síðan hafa gefð út slíkt kort.“

Í sömu umfjöllun kemur fram að kortið kosti 1 krónu og muni gagnast vel í landafræðikennslu þar sem alltaf hafi vantað kort af Íslandi. Umfjöllunina á timarit.is má sjá með því að smella hér.

Landmælingar Íslands þakka Þór Gunnarssyni kærlega fyrir góða gjöf. Kortið verður varðveitt í kortasafni stofnunarinnar.

Â