Fara í efni

Landmælingar Íslands "Stofnun ársins 2013"

Landmælingar Íslands urðu í fyrsta sæti í vali á Stofnun ársins 2013 í flokki meðalstórra stofnana (20-49 starfsmenn) en það var tilkynnt við hátíðlega athöfn á Hilton Nordica hótelinu í dag 24. maí 2013 að viðstöddum fjölda fólks. Þetta í annað sinn sem stofnunin hlýtur titilinn Stofnun ársins og ber sú góða einkunn sem starfsmen Landmælinga Íslands gefa vinnustað sínum vitnisburð um góðan starfsanda, öfluga starfsmannastefnu og góða stjórnun vinnustaðarins. Starfsmenn Landmælinga Íslands hafa tekið þátt í þessari könnun frá upphafi og hefur stofnunin ætíð verið framarlega í flokki enda könnunin verið eitt af tækjum stofnunarinnar til að bæta starfsumhverfið.

 Hjá Landmælingum Íslands sem eru með aðsetur á Akranesi stendur nú yfir vinna við innleiðingu á jafnlaunavottun VR. Vinnan er unnin samkvæmt nýjum íslenskum staðli (ÍST 85:2012) og gert er ráð fyrir að stofnunin fái vottun í byrjun júní nk. og verði fyrst íslenskra ríkisstofnana til að stíga það skref.

 SFR - stéttarfélag í almannaþjónustu stóð nú í áttunda sinn að vali á Stofnun ársins en hjá Landmælingum Íslands var könnunin gerð meðal allra starfsmanna óháð því í hvaða stéttarfélagi þeir eru.