Fara í efni

Landmælingar Íslands opna Landupplýsingagátt

Þann 1. júní var Landupplýsingagátt gatt.lmi.is formlega opnuð á vef Landmælinga Ísland www.lmi.is en hún hefur verið í prófun frá 1. des 2011. Gáttin er í samræmi við 5 gr. laga nr. 44/2011 um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar sem samþykkt voru á Alþingi 10. maí 2011. Með samþykkt þeirra var INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins jafnframt leidd í lög hérlendis. Landupplýsingagáttin geymir lýsigögn (e: metadata) um landupplýsingar þar sem hægt er að finna hvar nálgast má gögnin, skoða þau og nálgast þjónustur þeim tengdar. Skráning gagna í gáttina er opin öllum opinberum aðilum sem bera ábyrgð á landupplýsingum en aðrir eigendur landupplýsingagagna geta sótt um aðgang til skráningar hjá Landmælingum Íslands. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að reynsluskráningum gagna og fínstillingu gáttarinnar sem byggir á Geoportal þjóni ESRI hugbúnaðarframleiðandans.

Þýðing gáttarinnar á íslensku

Mikið kapp verið lagt á þýðingu gáttarinnar yfir á íslensku. Þar sem landupplýsingageirinn er tiltölulega ungur hefur oft reynst erfitt að þýða tæknilega hugtök. Mest var stuðst við niðurstöður Þýðingarmiðstöðvar Utanríkisráðuneytisins og þýðingu þeirra á INSPIRE tilskipuninni, orðalista LÍSU samtakanna auk almennra, óskrifaðra málvenja innan landupplýsingasamfélagsins. Landmælingar Íslands óska eftir því að notendur sendi ábendingar eða leiðréttingar ef eitthvað má bæta í Landupplýsingagáttinni eða þýðingu hennar og gott væri að fá tillögur um betri þýðingar þegar það á við. Athugasemdir er varða grunngerð landupplýsinga má senda á netfangið: elf@lmi.is