Fara í efni

Landmælingar Íslands hafa náð öllum Grænu skrefunum

Landmælingar Íslands voru í hópi þeirra stofnana sem tóku þátt í að þróa og innleiða verkefnið Græn skref í ríkisrekstri árið 2014. Verkefninu er skipt niður í fimm skref sem þáttakendur geta innleitt eitt í einu. Nú einu og hálfu ári síðar hafa Landmælingar Íslands lokið við að innleiða öll fimm skrefin og er stofnunin ein af þremur á Íslandi sem hafa náð því metnaðarfulla markmiði. Með innleiðingu Grænu skrefanna hafa Landmælingar Íslands ákveðið að hafa jákvæð áhrif á umhverfið með margvíslegum hætti, bæta starfsumhverfi starfsmanna og draga úr rekstrarkostnaði. Til þess að fylgja markmiðunum eftir mun stofnunin halda áfram að færa Grænt bókhald, fylgja eftir stefnu sinni um vistvæn innkaup og setja sér árlega ný markmið í umhverfismálum sem fylgt er eftir í sérstakri framkvæmdaáætlun.