Landmælingar Íslands festa kaup á alstöð
Í gær, 6. desember afhentu fulltrúar frá fyrirtækinu Ísmar, Landmælingum Íslands alstöð af gerðinni Trimble S9 HP sem stofnunin hefur fest kaup á. Alstöðin er með hálfrar sekúndu nákvæmni og ein af þeim fullkomnustu sem eru í notkun hér á landi. Alstöðin er aðallega hugsuð til mælinga vegna viðhalds og við áframhaldandi uppbyggingu hæðarkerfis Íslands, ISH2004. Með alstöðinni má gera ráð fyrir að afköst við mælingar tvöfaldist auk þess sem að einungis þarf tvo menn við mælingarnar en með eldri aðferðum þurfti þrjá og hefur því talsverða hagræðingu í för með sér. Að auki leyfir þessi nýja mæliaðferð mælingar í íslenskara veðri en eldri aðferðir og búnaður og eykur það einnigá afköst og hagkvæmni.
Alstöðina má einnig nota til vöktunar s.s. á stíflu- og brúarmannvirkum eða svæðum þar sem hætta er á jarðskriði. Alstöðin er hálfsjálfvirk og við bestu aðstæður er nákvæmni tækisins innan við 1 mm.
Á myndinni má sjá mælingaverkfræðinga LMÍ þau Daliu Prizginiene, Þórarinn Sigurðsson og Guðmund Valsson með þeim Jóni Tryggva Helgasyni og Sveinbirni Sveinbjörnssyni frá Ísmar.