Landmælingar Íslands eru fyrirmyndarstofnun 2018
Niðurstöður úr könnuninni Stofnun ársins 2018, sem SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu og fjármála- og efnahagsráðuneytið standa fyrir, voru kynntar við hátíðlega athöfn á Hilton Nordica hótelinu þann 9. maí. Í flokki meðalstórra stofnana voru Landmælingar Íslands í 5. sæti og raða sér þar með meðal fyrirmyndarstofnana árið 2018. Könnunin er ein viðamesta könnun á vinnuumhverfi hjá íslenskum stofnunum en starfsmenn Landmælingar Íslands hafa frá upphafi hennar tekið þátt og hefur stofnunin ávallt verið meðal þeirra efstu.
Hjá Landmælingum Íslands lögð áhersla á að starfsumhverfið sé aðlaðandi og fjölskylduvænt, einnig að fagleg þekking, starfsþróun, sveigjanleiki og hvatning séu ríkjandi. Þá hefur stofnunin fengið jafnlaunavottun og unnið er samkvæmt grænum skrefum í opinberum rekstri. Sú góða einkunn sem starfsmenn gefa vinnustað sínum ber vott um góða stjórnun, góðan starfsanda og að stefnum og markmiðum í mannauðsmálum sé fylgt eftir.